Vörugjald af olíu

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 19:11:22 (3369)

1998-02-03 19:11:22# 122. lþ. 57.8 fundur 358. mál: #A vörugjald af olíu# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[19:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja vegna síðustu orða hæstv. fjmrh. og reyndar kom það ítrekað fram í máli hans að frv. þyrfti að fara í rækilega skoðun í hv. þingnefnd. Það mun að sjálfsögðu ekki standa á efh.- og viðskn. að fara yfir þetta mál eina ferðina enn. Hér er um gamlan kunningja að ræða, ef svo má að orði komast, bæði efh.- og viðskn. sem starfaði á fyrra kjörtímabili og sú sem hefur starfað á þessu kannast við þetta mál, eða a.m.k. margir nefndarmanna sem komið hafa að því starfi.

Hæstv. fjmrh. rakti forsögu málsins þannig að ég þarf ekki að eyða tíma í það. Það jaðrar við að kalla megi tilurð þessa máls hálfgerðan vandræðagang sem verið hafi með þetta mál og það á ekki aðeins við í tíð hæstv. núv. fjmrh. Sú saga nær reyndar enn þá lengra aftur. Það er búið að vera til skoðunar meira og minna linnulaust í stjórnkerfinu, í líklega upp undir 15 ár, að breyta þessari aðferð, að hverfa frá þungaskatts- og mælakerfinu og koma á í staðinn einhvers konar olíugjaldi eða annarri skattheimtu. Síðan hefur ýmislegt orðið til þess að tefja framgang málsins. Menn hafa verið að bíða eftir tækniframförum. Um tíma biðu menn eftir að til sögunnar kæmu svo fullkomnir ökumælar að ekki væri nokkur leið að svindla á þeim. Það reyndist mikill barnaskapur því að mannshugurinn sá fljótt við þeirri tækni. Þeir sem það vilja ástunda fundu nýjar og nýjar aðferðir til að komast fram hjá skattinum. Síðan var stefnt á olíugjaldskerfi með litun en þar hafa menn einnig verið að velta fyrir sér möguleikum á nýrri tækni sem væri ódýrari í rekstri og sparaði tvöfalt dreifingarkerfi. Þessa sögu þekkja menn, og hæstv. fjmrh. rakti síðasta kaflann, þ.e. það sem gerst hefur frá því að lög voru sett á árinu 1995 með gildistöku 1996. Þeim var síðan frestað til 1. jan. 1998 og var þá um að ræða hugmyndir um endurgreiðslukerfi án litunar og síðan frv. sem lagt var fram um litun, sem ekki var afgreitt, en í staðinn flutti hv. efh.- og viðskn. enn frestunarfrv. og nú er gert ráð fyrir tímamótum að þessu leyti að upptöku olíugjalds 1. jan. 1999, þ.e. 1. jan. á næsta ári.

Og enn erum við í þeim sporum að hingað kemur frv. Það leggur að vísu til tiltekna útfærslu í málinu en því fylgir úr hlaði það veganesti hæstv. fjmrh. að í raun þurfi að fara yfir málið frá grunni á nýjan leik eina ferðina enn, endurmeta stöðuna algerlega í ljósi breyttra aðstæðna, þeirra aðstæðna sem við stöndum nú frammi fyrir.

[19:15]

Í því sambandi er nauðsynlegt að skoða hversu miklum árangri menn hafa raunverulega náð í því að uppræta undanbrögð í núverandi þungaskattskerfi og hvort það hafi tekist, sem ýmislegt bendir reyndar til, að lagfæra það fyrirkomulag þannig að það sé að verða sæmilega ásættanleg aðferð. Í ljósi þess sem hér er lagt til má ekki útiloka þann kost .

Varðandi frv. og það sem það felur í sér hlýt ég að segja, herra forseti, að ég er nokkuð undrandi. Ég hef að vísu kannski mildari tón í þeim orðum mínum en ég hefði ella haft ef hæstv. fjmrh. hefði boðað þetta sem endanlega niðurstöðu og stefnu sem knúin yrði til afgreiðslu. Ég verð satt best að segja að játa það að ég hafði ekki átt von á því að þessi útgáfa af málinu ætti eftir að koma fyrir. Ég bjóst ekki við þeirri ótrúlegu niðurstöðu að eftir allt talið um kerfisbreytinguna, nauðsyn þess að losna við þungaskattinn, mælana og það vesen, þá römbuðu menn á þá niðurstöðu í kerfinu að gera hvort tveggja, taka upp olíugjaldið og halda í þungaskattinn. Að vísu er það ekki nema á hluta bílaflotans en nóg samt. Þetta er að mínu mati, herra forseti, stórgölluð niðurstaða. Í fyrsta lagi er það vegna þess að í raun er verið að baksa við að halda við tvöföldu kerfi, olíugjaldinu með öllu sem því fylgir og líka mælakerfi þó það sé gagnvart mun færri greiðendum en býsna mörgum samt.

Í öðru lagi er niðurstaðan að mínu mati algerlega ótæk vegna þess að hún skattleggur aukinn akstur tvöfalt. Hugsunin bak við olíugjaldskerfið sem leysti af hólmi að einhverju leyti fastagjald og að einhverju leyti mælagjald var auðvitað sú að gjald fyrir notkun á vegunum kæmi í gegnum aukna olíueyðslu. Þeim mun meira sem menn keyra þeim mun meira eyða menn væntanlega af olíu og borga því þeim mun hærra olíugjald. En hér hafa menn fengið þá furðulegu útkomu að þeir ætli að láta olíugjaldið telja að fullu gagnvart t.d. flutningabílum sem keyra 100 þús. eða 200 þús. km á ári, eða hvað það nú getur farið upp í, og leggja einnig á það kílómetragjald þannig að þeir borgi tvöfalt fyrir aukinn akstur. Mér sýnist þetta gersamlega útilokuð niðurstaða vegna þess að hún bitnar af óhóflegum þunga á þeirri flutningastarfsemi sem um lengstan veg fer.

Í þriðja lagi virðist þetta líka nokkuð erfið lending vegna þess að hún mun fela í sér dýrt kerfi. Hún felur í sér mikinn stofnkostnað olíufélaganna upp á 300 og eitthvað millj., 80 millj. til viðbótar í tönkum og rekstrarkostnað upp á á annað hundrað millj. á ári. Niðurstaðan felur einnig í sér áframhaldandi mælakerfi með eftirlitskostnaði og kostnaði þeirra sem þurfa að leggja til mælana. Fyrir þá sem lenda í hvoru tveggja verður þetta augljóslega mjög dýrt.

Ég heyrði því fleygt á dögunum að ekki væri ólíklegt að olíuverðið þyrfti að vera um tveimur kr. hærra á lítrann, fyrstu árin a.m.k, vegna viðbótarkostnaðarins af upptöku olíulitunarinnar. Það er mikill fórnarkostnaður við það að taka upp kerfið ef flutningabílar, sem ættu áfram að bera mælagjöldin, fá á sig olíugjaldið og að auki tveggja kr. hækkun vegna stofnkostnaðar í kerfinu sem þeir jafnframt fá á sig að fullu. Þá er þeirra hlutur orðinn nokkur strembinn. Langalvarlegasti þáttur þessa máls og sá sem gerir það að verkum að það mun ekki teljast nein hemja að lenda málinu svona er sá sérstaki kostnaður sem leggst á flutninga út á landsbyggðina. Það gengur ósköp einfaldlega ekki.

Ég tek það að vísu fram að ég er að mörgu leyti sammála því sem fram kom í máli ráðherra, að þörf sé á að endurmeta þessar áherslur og menn þurfi líka að hafa umhverfismálin í huga. Það er vissulega rétt að olíugjaldið sem skattlagningaraðferð hefur þann stóra kost að það hvetur til orkusparnaðar. Með þeim rökum mætti segja að ef menn vilji minnka þessa miklu flutningastarfsemi á landi sem hér hefur farið hraðvaxandi undanfarin ár, þá væri skynsamlegt að reyna að stýra því eitthvað í gegnum skattlagningu af þessu tagi, t.d. olíugjöld. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeim staðreyndum að mestöll almenn vörudreifing út í heilu landshlutana fer nú fram á landi. Sjósamgöngur í þeim skilningi sem áður var, þegar almenn vörudreifing fór fram með skipum, eru liðin tíð. Sjósamgöngurnar eru núna fyrst og fremst, sé vörunum ekki öllum ekið frá Reykjavík, í því fólgnar að stór skip komast inn á 4--6 hafnir á landinu og þaðan er þá vörunni dreift með bílum. Sá kostnaður sem endabyggðarlögin í þessu kerfi lenda í er óheyrilegur. Ég hef stundum tekið sem dæmi upplýsingar sem ég fékk á ferðalagi okkar þingmanna um Norðurl. e. í haust í starfsviku þingsins. Bóndi sem var að fá merkt búskapartæki, skítadreifara, gat fengið hann fluttan með skipi til Húsavíkur og borgaði að sjálfsögðu fulla frakt fyrir hann þangað. Síðan bauðst honum að flytja dreifarann áfram með flutningabifreið til Þórshafnar og ofan á skipafraktina áttu að leggjast 50 þús. kr. --- 50 þús. kr. fyrir þetta stykki sem er kannski eitt tonn á þyngd og tekur svona 3 m2 á dekki eða í bíl. Það var gjaldið. Halda menn að þetta séu aðstæður sem hyggilegt sé að skattleggja alveg ,,extraordinert`` því lengstu flutningaleiðirnar borga langþyngsta tollinn í kerfi af þessu tagi. Það gengur auðvitað ekki, herra forseti.

Ég er með útreikninga sem að vísu eru frá hagsmunaaðila, Félagi vöruflytjenda á landi, Landvara. Þar er gerð tilraun til að reikna þetta út og meta fyrir mismunandi flutningabíla eftir því hvort þeir eru með tveggja hásinga tengivagna eða ekki. Þeir með tengivagninum fengju á sig tvöfalt gjaldið. Frv. leggur til að til viðbótar kílómetragjaldinu sem bíll yfir 10 tonnum borgar komi tvöfalt það gjald á tengivagna. Þá er gjaldtakan orðin þrefaldur sá skali sem settur er upp í frv. Tökum stóran bíl, myndarlega samstæðu sem fer upp í þak þess sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. 40 tonna leyfilegan heildarþunga, 26 tonna bíl og 14 tonna tengivagn sem ekið er 160 þús. km á ári. Um slíkt geta auðveldlega verið dæmi, svo sem lengstu leiðir vestur á Firði, norður eða austur á land. Þessi bíll borgar í núverandi kerfi ef hann fer með sínum tengivagni 160 þús. km, ég viðurkenni að hér er um að ræða nokkurn veginn eins hátt dæmi og eins mikinn akstur og hægt er að hugsa sér, borgar 4,2 millj. í þungaskatt. Olíukostnaðurinn, þ.e. miðað við núverandi olíuverð eru síðan tæplega 2,2 millj. í viðbót. Samtals gerir þetta kostnað upp á tæpar 6,4 millj. kr. í skatt og olíukostnað í núgildandi kerfi. Samkvæmt lagafrv. mundi þessi flutningsaðili greiða 2 millj. 880 þús. í hið sérstaka kílómetragjald, 5 millj. 630 þús. í olíukostnað, þ.e. í olíukaupin plús greiðslu olíugjaldsins. Samtals eru þetta 8,5 millj. eða rúmlega 2,1 millj. meira en í núgildandi kerfi sem er 33,34% hækkun.

Hægt væri að taka mismunandi dæmi en ég tek hér hæsta dæmið þar sem munurinn er mestur. Þó má ljóst vera að allur akstur flutningsaðila af þessu tagi, ég tala nú ekki um ef þeir hafa tengivagna, og akstursleiðin er yfir 45--50 þús. km., þá þýðir þetta íþyngingu. Og hvaða leiðir eru það? Það eru nánast allar leiðir utan við 200--300 km radíus frá Reykjavík. Bílar sem fara að lágmarki eina ferð og jafnvel tvær ferðir í viku fara auðveldlega langt upp fyrir þessi mörk. Hvort sem menn hafa þá pólitík að sú þróun að flutningarnir hafi flust af sjó upp á land sé æskileg eða ekki, þá stöndum við frammi fyrir þessum staðreyndum og það er ekkert í sjónmáli bendir til þess að þar verði á snögg breyting. Fyrstu árin yrði þetta hreinn viðbótarskattur á flutningskostnaðinn út á land og er hann ærinn fyrir.

Í dag eru sjósamgöngur bannorð eða a.m.k. að stuðla að styrkingu þeirra. Ég á ekki von á því að menn taki þannig á hlutum hér á Íslandi á næstu árum að styrkja ýmist járnbrautarlestir eða sjósamgöngur af umhverfisástæðum eins og víða er gert á meginlandi Evrópu. Það þykir ekki fínt hér á Íslandi í dag og Heimdallur mundi örugglega álykta gegn því en hann kaus samgrh. mann ársins fyrir að leggja niður Ríkisskip. Eitt af því sem við erum að horfast í augu við hér eru afleiðingar þess. Það þýddi auðvitað stóraukna landflutninga á vegum sem ekki þola þá og slit á þeim vegum er mikið. Menn gætu sagt að þess vegna eigi umferðin að borga. En það verður ekki umferðin sem borgar. Það verða neytendurnir úti á landi. Fólkið á landsbyggðinni mun borga í gegnum sín lífskjör og það er sú staðreynd sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Þetta er, herra forseti, niðurstaða sem gerir það að verkum að ég gæti engan veginn sætt mig við hana í þessari mynd.

Að síðustu, herra forseti, eru rökin fyrir því að fara út í þetta tvöfalda kerfi fátækleg. Fyrst og fremst eru þau að halda þurfi inni tekjum Vegagerðarinnar. Menn hafi lent í einhvers konar klandri þegar þeir ætluðu að fara að stilla af upphæðum olíugjaldsins og náðu ekki inn nógum tekjum með því að hafa gjaldið ekki hærra en raun ber vitni, 34 kr. eða svo á km. Til þess að olíulítrinn yrði ekki dýrari en bensínlítrinn völdu menn þessa hallærisleið að taka það sem á vantar gegnum viðbótarskatt, kílómetragjald á stærri flutningabíla. Þetta er algjör magalending.

Það eru margar miklu skynsamlegri leiðir til þess að bæta sér að fullu þennan tekjumissi. Sú gáfulegasta er auðvitað sú að líta á tekjustofninn í heild, á bensíngjaldið og olíugjaldið saman og stilla af upp á nýtt þannig að bilið á milli sé hóflegt. Þannig mætti gera þetta en ekki gegnum tvöfalt innheimtukerfi á þungaskattinum eða olíugjaldinu. Ég er sammála því að hóflegt bil þarf að vera þarna á milli til þess að hvetja til olíunotkunar. Sú þróun gæti orðið hér að minni dísilbílar komi til sögunnar, fólksbílar með dísilvél o.s.frv. Við skerum okkur nokkuð úr með að þeir eru nánast ekki til nema þá atvinnutæki leigubílstjóra og þar þarf að sjálfsögðu að verða á áherslubreyting. Til eru miklu skynsamlegri leiðir til að kalla hana fram en sú sem menn hafa hér rambað á.

Sem rök gegn afsláttarkerfinu sem verið hefur við lýði gagnvart þeim sem mest keyra er sagt að það sé bannað, hin heilaga Samkeppnisstofnun bannar það. Það getur vel verið að menn verði að ganga með einhverjum öðrum hætti frá því máli þó það finnist mér nokkuð sérkennilegur úrskurður. Það er undarlegt að ekki sé heimilt að veita magnafslátt, ef við orðum það svo, til þeirra sem greiða svona mikið og eru stórir kúnnar hjá Vegasjóði í gegnum þungaskattinn. Þeir leggja hann að miklu leyti til með því að aka meira en aðrir. Því skyldu þeir ekki mega fá magnafslátt eins og þeir sem kaupa mikið af mjólk eiga núna heimtingu á að fá magnafslátt? Nú er bannað að hafa fasta verðlagningu á slíkum vörum af því að Samkeppnisstofnun kemur í veg fyrir það að menn njóti hagkvæmninnar af stórum innkaupum. Stundum finnst mér ýmislegt rekast á í þessari röksemdafærslu.

Aðalatriðið er í mínum huga það að þarna eru mun vænlegri leiðir en sú sem hér er. Hún er stórgölluð. Úr því að Samkeppnisstofnun er blandað í málið má spyrja: Er eitthvað skárra að undanskilja fólksflutningabíla, stóra og þunga fólksflutningabíla en leggja þetta á stóra og þunga vöruflutningabíla? Hvers vegna þessa mismunun? (Fjmrh.: Virðisaukaskattskerfið.) Já, að vísu er virðisaukaskattskerfið þar líka en auðvitað lendir virðisaukaskattur inni í flutningskostnaði á vörum út á land, það vitum við, og safnast reyndar þar upp. (Fjmrh.: Leggst á sem virðisaukaskattur.) Já, já, það er hárrétt hjá hæstv. fjmrh., sem kemur hér fram í frammíkalli, að hið sérstaka uppgjörskerfi sem gildir vegna þess að fólksflutningagjöldin eru ekki virðisaukaskattsskyld, það veldur þarna vissum vandkvæðum. En ýmsar aðrar leiðir eru heppilegri en sú sem þarna er lögð til.

Niðurstaða mín er sú, herra forseti, að taka þurfi þetta mál og skoða ofan í kjölinn og það mun efh.- og viðskn. að sjálfsögðu taka að sér að gera og bregðast vel við tilmælum hæstv. ráðherra í því sambandi. Mér sýnist þrennt koma til greina í stöðunni. Í fyrsta lagi að hætta einfaldlega við þetta, slá þessi lög um olíugjaldið af, fella þau úr gildi og reikna með því um sinn að betrumbætt þungaskattskerfi haldist áfram. Annað væri að taka upp olíugjald með endurgreiðslukerfi og þó einhvers konar eftirliti af því tagi sem Danir eru að reyna. Í þriðja lagi væri hægt að taka upp olíugjald með litun olíunnar, endurskoða tekjuöflun Vegasjóðs og ríkissjóðs í dæminu í heild sinni, stilla bensíngjaldið/olíugjaldið af upp á nýtt og búa við einfalt innheimtukerfi, vörugjald á bensíni og olíugjald á olíu.