Vörugjald af olíu

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 19:31:35 (3370)

1998-02-03 19:31:35# 122. lþ. 57.8 fundur 358. mál: #A vörugjald af olíu# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[19:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðu hans. Það er rétt sem kemur fram hjá honum að það er kaldhæðni örlaganna að nú vinnur það gegn framgangi frv. hve vel hefur tekist með innheimtu á þungaskattinum á undanförnum árum.

Hv. þm. segir að með samþykkt frv. sé verið að leggja aukaskatt á þá sem keyra mest og á þyngstu bílana og það er út af fyrir sig rétt með því að halda í kílómetragjaldið. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú að Samkeppnisstofnun hefur komist að ákveðinni niðurstöðu og frv. þarf að bera saman við þá niðurstöðu. Það er athyglisvert í þessu öllu saman að það mál var sérstaklega til umræðu á þinginu í nóvember sl. Þá flutti einn hv. þm. ræðu og þar sagði hann m.a., með leyfi forseta:

,,Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. skýri frá því hér að hann muni beita sér fyrir því að breyta lögunum þannig að allir þeir sem eru að vinna á þessum nótum vinni við hliðstæð skilyrði.`` --- Og síðar: --- ,,Og það er raunverulega óviðunandi að lögunum skuli ekki vera breytt þannig að öll tvímæli verði tekin af um það að allir aðilar sitji við sama borð eins og segir í úrskurði Samkeppnisstofnunar.``

Sá sem segir þessi orð er hv. þm. Guðmundur Lárusson, varaþingmaður hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþb. Með þessu er ég að sýna hve sjónarmiðin eru mörg og hve þetta sker í sundur flokkana og hve nauðsynlegt er að menn kanni þessi mál mjög vel í nefndinni. Ég tek undir það með hv. þm. að nefndin þarf að sjálfsögðu að skoða þessi mál. Nú er grundvöllur, búið er að safna öllum upplýsingum, frv. er heildstætt en þingið kemst ekki hjá því að taka afstöðu til málsins.