Minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:31:31 (3374)

1998-02-04 13:31:31# 122. lþ. 58.1 fundur 296. mál: #A minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 368 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum.

Forsaga málsins er sú að deilur risu með mönnum vestra vegna hugmyndar um minnismerki um breska sjómenn og staðsetningu þess. Eins og málinu var lýst í fjölmiðlum hafði Egill Ólafsson á Hnjóti, forvígismaður eins merkasta byggðasafns hérlendis, stungið upp á því að reist yrði minnismerki um drukknaða breska sjómenn að Hnjóti. Slíkt minnismerki mundi falla vel að safninu, en Hnjótur er í grennd við þá staði þar sem miklir skipsskaðar urðu forðum. Má þar nefna strandið við Látrabjarg, en kvikmynd Óskars Gíslasonar um þann atburð er öllum kunn.

Egill var í sambandi við utanrrn. og breska aðila frá fyrrum togarabæjum á Bretlandi við vinnu sína að málinu. Bæjaryfirvöld á Patreksfirði tengdust þessu en þau telja að minnismerkið eigi að rísa á Patreksfirði, m.a. vegna þess að það yrði þá staðnum sem slíkum lyftistöng. Bresku aðilarnir virðast samþykkja þá staðsetningu en þó virðist ýmislegt óljóst við málið. Þess var getið í fjölmiðlum að utanrrn. hafi tengst málinu, væntanlega vegna samskipta við bresku aðilana og e.t.v. vegna annarra afskipta.

Það er aldrei til góðs, herra forseti, að deilur vakni vegna slíkra mála en hugmyndin um minnismerkið er góð og virðingarverð. Fyrirspurn mín til hæstv. utanrrh. er gerð til að skýra málið en almenningur áttaði sig ekki á því á sínum tíma. Það er hvorki ætlun mín að ýfa upp nein sár vegna málsins né tengja hæstv. utanrrh. málinu nema að því marki að óska eftir upplýsingum um þau tvö atriði sem í fyrirspurn minni felast. Þau eru:

Í fyrsta lagi: Hver hafa verið afskipti ráðuneytisins eða annarra stjórnvalda í tengslum við hugmynd Egils Ólafssonar á Hnjóti um að reisa minnismerki um drukknaða breska sjómenn að Hnjóti?

Í síðara lagi óska ég eftir að vita hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir því að fyrrgreint minnismerki verði reist að Hnjóti eða mun hann leggja því lið að minnismerkið verði reist á Patreksfirði.