Minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:36:38 (3377)

1998-02-04 13:36:38# 122. lþ. 58.1 fundur 296. mál: #A minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:36]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það ber að harma mjög þær deilur sem sprottið hafa meðal heimamanna vegna staðsetningar á þessu minnismerki. Öllum er ljóst að Egill Ólafsson á Hnjóti hefur unnið einstakt verk varðandi uppbyggingu safnsins þar og það er mikilvægt að við stöndum á bak við þá uppbyggingu sem þar hefur farið fram og það hefur sem betur fer tekist.

Ég tel ekki rétt að Alþingi eða utanrrn. setji sig í þá stöðu að verða úrskurðaraðili í þessu efni. Það verða aðilar málsins að útkljá á annan hátt. En það sem ber fyrst og fremst að leggja mikla áherslu á er að menn reyni að ná sáttum í þessu máli, máli sem er mjög mikilvægt og varðar bæði þá sem minnismerkið er reist til minningar um en einnig auðvitað þá sem koma að þessu máli með öðrum hætti. Ég vil aðallega í þessu sambandi leggja áherslu á að menn reyni að leita sátta í þessum efnum þannig að deilurnar verði ekki meiri eða magnaðri en þær þegar hafa orðið.