Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:50:56 (3383)

1998-02-04 13:50:56# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:50]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að ekki væri hægt að afgreiða málflutning þeirra sem hafa tekið málstað Íraks sem öfgar. En það er því miður einmitt vegna málflutnings sumra þeirra, sem hefur verið það öfgakenndur að mjög erfitt er að styðja þennan málstað. En ég kem hér samt sem áður til að lýsa því yfir að ég styð hann. Ég tel að kominn sé tími til að íslensk stjórnvöld taki til endurskoðunar aðild sína að viðskiptabanninu á Írak.

Ég tók eftir að hæstv. utanrrh. sagði að rökrétt væri að menn veltu því fyrir sér hvort það þjónaði þeim markmiðum sem að var stefnt. Ég held að það geri það ekki lengur. Hæstv. utanrrh. sagði líka að öllum stofnunum sem hefðu rannsakað málið bæri saman um að næringarástand t.d. barna í Írak væri slíkt að það væri ekki viðunandi. Þá segi ég einfaldlega að ég held að það sé ekki siðferðilega verjandi fyrir okkur Íslendinga annað en a.m.k. að leyfa okkur þann munað að taka þetta til umræðu, hvort við eigum að styðja þetta viðskiptabann, og ég held að það sé kominn tími til að við gerum það ekki. Ég held að það nái ekki þeim tilgangi sem upphaflega var að stefnt. Ég held að saga síðustu ára sýni það. Ég held að kominn sé tími til að við (Forseti hringir.) hugum að niðurstöðu þeirra fjölmörgu alþjóðlegu sendinefnda sem hafa skoðað ástandið þarna og drögum af því okkar sjálfstæðu ályktanir.