Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:52:20 (3384)

1998-02-04 13:52:20# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GHH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:52]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Vandamálið í Írak er ekki viðskiptabannið. Vandamálið er stjórnarfarið í landinu og þau stjórnvöld sem þar ráða ríkjum sem kúga þjóðina og hafa gert til margra ára, m.a. beitt hana sinnepsgasi eins og bent var á áðan.

Það er rangt að viðskiptabannið sé aðgerð eins lands gegn öðru. Þetta er aðgerð alþjóðasamfélagsins sem stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gerir beinlínis ráð fyrir að sé beitt við ákveðin tækifæri og það var niðurstaða öryggisráðsins að grípa til þessa úrræðis sem vissulega er neyðarúrræði.

Hverjir sitja í öryggisráðinu? Er þingmönnum ekki kunnugt um að þar sitja stórveldin öll og þar sitja löndin öll sem hafa neitunarvald og að helsti stuðningsmaður Bandaríkjamanna í þessu máli er auðvitað enginn annar en uppáhaldsvinur vinstri manna á Íslandi, Tony Blair og ríkisstjórn Verkamannaflokksins? Vita menn ekki að Svíar sitja í öryggisráðinu og taka fullan þátt í þessu? Vita menn ekki að hér er alþjóðasamfélagið allt á ferðinni með þessar aðgerðir? Ísland á ekki að skorast úr leik. Íslendingar eiga ekki einir að draga sig út úr þessu viðskiptabanni. Við eigum að standa með aðgerðum Sameinuðu þjóðanna. Við getum síðan rætt það á almennari grundvelli hvort viðskiptabann sem slíkt á rétt á sér en í þessu máli eigum við ekki að skerast úr leik.