Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:53:42 (3385)

1998-02-04 13:53:42# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:53]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir hv. utanrmn. liggur tillaga um breytta afstöðu Íslendinga varðandi viðskiptabannið. Það á auðvitað að afgreiða þá tillögu. Það er kjarni þessa máls að Alþingi taki afstöðu til þess hvaða skoðun það hefur sem slíkt á viðskiptabanninu. Það sýnir náttúrlega sérkennilega stöðu málsins að núverandi ríkisstjórn hefur í raun ekki tekið formlega afstöðu í málinu, hefur ekki afgreitt það með sínum hætti. Ég skora því á þingið og sérstaklega formann utanrmn. að beita sér fyrir því að sú tillaga sem legið hefur fyrir nefndinni óafgreidd í þrjú ár verði afgreidd.