Fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:02:33 (3389)

1998-02-04 14:02:33# 122. lþ. 58.3 fundur 380. mál: #A fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni er svohljóðandi:

,,Telur ráðherra tímabært að rýmka aðgang að læknadeild Háskóla Íslands eða aflétta fjöldatakmörkunum numerus clausus?``

Forsvarsmenn Háskóla Íslands byggja ákvarðanir um fjöldatakmarkanir annars vegar á klínískri kennslugetu læknadeildar en einnig hefur verið höfð til hliðsjónar spá um læknaþörf sem gerð var á vegum samnorrænnar nefndar er öll læknafélögin eiga aðild að. Hvað varðar inntöku læknanema í háskóla miðað við mannfjölda standa Íslendingar ekki illa samanber eftirtalda töflu sem ég mun lesa hér upp. Tölurnar miðast við eina milljón íbúa:

Danmörk 185, Svíþjóð 98, Finnland 72, Noregur 112 og Ísland 133.

Ef litið er til spádóma læknafélaganna, sem birtust síðast í Læknablaðinu 1996, hefur spáin verið sú fyrir Ísland að nokkurt offramboð væri á læknum miðað við þann fjölda sem læknadeild hefur kennt og að það ástand standi a.m.k. fram til ársins 2010. Væntanleg er ný spá á þessu ári en frá gerð síðustu spár hefur umræðan um vinnutímatilskipan Evrópubandalagsins orðið æ háværari auk þess sem mikill skortur er á læknum í Noregi. Sá skortur hefur leitt til þess að verulegum fjármunum og auglýsingastarfi hefur verið beitt af Noregs hálfu til þess að ná þangað inn læknum erlendis frá og hafa íslenskir læknar því hugsað sér til aukins hreyfings eins og kollegar þeirra annars staðar í Evrópu.

Það sem vekur mesta athygli er aldursdreifing starfandi lækna á Íslandi. Aldurshópurinn frá 30--34 ára er mjög fámennur og hlutfallslega fámennari en annars staðar Norðurlöndunum. Þetta er að sjálfsögðu hópurinn sem er í framhaldsnámi, hópurinn sem hefur mjög sérstöku hlutverki að gegna innan heilbrigðiskerfisins, gjarnan í fyrstu viðbragðslínu. Vitað er að þessi hópur er fámennur á Íslandi vegna þess að íslenskir læknar verða að sækja sér framhaldsmenntun erlendis. Þetta er aldursbilið sem er sem sagt erlendis í námi. Það er mikilvægt að finna leið til að stækka það hlutfall þessara lækna er starfa á Íslandi. Það verður einungis gert með endurskoðun og eflingu framhaldsnáms á Íslandi.

Fyrirsjáanlegt er að áðurnefndar mannaflaspár komi til með að breytast við næstu spágerð. Allt bendir til þess að yfirvofandi sé skortur á ungum læknum. Ég mun því beita mér fyrir því að flýtt verði gerð næstu spár og staðfesti hún þann grun sem ég hef nefnt mun ég leggja það til að menntmrn. og heilbrrn. vinni að því sameiginlega að fjölga útskrifuðum íslenskum læknum á ári hverju og jafnframt að ráðuneytin beiti sér fyrir því í samvinnu við sjúkrastofnanir og læknadeild Háskóla Íslands að endurskipulagt verði framhaldsnám á Íslandi þannig að hlutfallsleg fjölgun verði á læknahópnum á aldrinum 30--34 ára.