Fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:14:15 (3394)

1998-02-04 14:14:15# 122. lþ. 58.4 fundur 395. mál: #A fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hægt er að svara báðum fyrirspurnum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar játandi varðandi það í fyrsta lagi hvort ráðherra hafi tryggt að Geislavarnir ríkisins geti stundað á fullnægjandi hátt vöktun og mælingar á geislavirkum efnum á íslenskum hafsvæðum og í öðru lagi hvort ráðuneytið hafi gripið til sérstakra ráðstafana til að Geislavarnir ríkisins geti byrjað vöktun vegna teknesíum frá Sellafield sem nú hefur mælst við Noregsstrendur.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um geislavarnir en uppbygging á aðstöðu Geislavarna ríkisins til mælinga á geislavirkum efnum í umhverfi og matvælum hófst árið 1986 í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina sem lagði til ýmis mælitæki og allan búnað.

[14:15]

Uppbyggingin á vöktun og mælingu á geislavirkum efnum á íslenskum hafsvæðum var skipulögð í áföngum. Fyrsta áfanga þar sem áhersla var lögð á geislavirk efni sem gefa frá sér gammageislun eða sesíum 137 lauk fyrir nokkrum árum. Annar áfangi hófst með því að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin lagði fram mælitæki til mælinga á betageislun. Er ætlunin að mælingar á geislavirkum efnum sem gefa frá sér betageislun með áherslu á teknesíum 99 verði hafnar í byrjun næsta árs en undirbúningur þess er þegar hafinn. Í þriðja og síðasta áfanga felst uppbygging á aðstöðu til alfagreiningar.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 2. febr. sl. tillögur heilbr.- og trmrh. um að veita fjármagn til þess að öðrum áfanga verði lokið í ár þannig að vöktun vegna geislavirkra efna sem gefa frá sér betageislun geti hafist þegar á næsta ári. Áætlaður kostnaður á árinu 1998 eru 3,5 millj. vegna beinna launa og stofnkostnaðar en árlegur beinn rekstrarkostnaður er áætlaður um 3,9 millj. Geislavarnir munu standa straum af ýmsum óbeinum kostnaði. Þess er vænst að norrænar kjarnorkurannsóknir styrki verkefnið næstu fjögur ár með styrk að upphæð 1 millj. kr.

Virðulegi forseti. Það er því hægt að svara fyrirspurn hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að búið er að styrkja Geislavarnir þannig að Geislavarnir geta uppfyllt þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.