Fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:23:05 (3399)

1998-02-04 14:23:05# 122. lþ. 58.5 fundur 381. mál: #A fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég flyt til hæstv. menntmrh. er efnislega samhljóða fyrri fyrirspurn minni í dag til hæstv. heilbrrh. Hún felur annars vegar í sér spurninguna: Hvaða rök liggja til grundvallar fjöldatakmörkunum við læknadeild Háskóla Íslands?

Nú kom fram í máli hæstv. heilbrrh. fyrr í dag að það er fyrirsjáanleg að hennar mati læknaekla sem mun fara fyrr að bíta en menn töldu áður, m.a. vegna þess að það er mikil sókn frá Noregi í lækna okkar og líka vegna þess að það er gerbreyting á vinnutilhögun lækna sökum vinnutímatilskipunar Evrópusambandsins. Þetta gerir það að verkum að þau rök sem menn höfðu áður fyrir numerus clausus við læknadeild Íslands hljóta að vera miklu léttvægari en áður.

Það hefur líka komið fram í máli þess ráðherra sem hefur talað að þegar menn eru að ákveða aðgangstakmarkanir að læknadeild Háskóla Íslands er það m.a. gert í ljósi klínískrar getu spítalanna til þess að taka við læknum í námsstöður. Ég hlýt að nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. menntmrh. sérstaklega um það hvaða breytingar hafa orðið á klínískri getu sjúkrahúsanna til þess að taka við læknanemum í námsstöður sem gera það að verkum 1992 var einungis hægt að taka við 36 en það var hægt að taka við 30 árið 1993 og til ársins 1995 þegar hin klíníska geta breyttist skyndilega þannig að samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu læknadeildar var tekið við 39. Hverjar eru breytingarnar og hvernig stendur á því að menn rokka svona með þetta frá ári til árs? Ég held að skýringin sé einföld. Ég held að þetta sé læknastéttin í krafti einokunar sinnar á þessari deild sem er að takmarka fjöldann til þess að halda uppi launum sínum. Ég held að þarna sé að nokkru leyti að finna rót sérfræðingavandans og ég held að rök af þessu tagi séu ekki verjanleg. Því hef ég velt því fyrir mér, herra forseti, hvort hæstv. menntmrh. sé ekki reiðubúinn til þess að lýsa því yfir við umræðuna að hann telji tímabært að rýmka aðgang að deildinni eða aflétta fjöldatakmörkunum.

Ég get fallist á að það þurfi einhvers konar fjöldatakmarkanir en það verða þá að vera skýrar reglur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er tekin árleg ákvörðun. Það er ekki mjög skýrt. Það er ekki hægt að halda því fram að aðstæður háskólasjúkrahúsanna breytist ár frá ári. Ég held að þetta séu bara tiktúrur læknanna sem ráða þessu og ég held að hæstv. menntmrh. eigi að taka fram fyrir hendurnar á þeim, beita sér fyrir því að settar séu skýrar gagnsæjar reglur en hann eigi líka að fallast á þau rök sem liggja fyrir og hæstv. heilbrrh. hefur m.a. flutt og vísa beinlínis til þess að nauðsynlegt sé að rýmka þessar reglur. Ég vísa til þess að þegar ég var í háskólanum fyrr á þessari öld voru til námsstöður fyrir 45 lækna. Hvað hefur breyst síðan? Ekki hefur spítölunum fækkað.