Fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:26:24 (3400)

1998-02-04 14:26:24# 122. lþ. 58.5 fundur 381. mál: #A fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi svars míns geta þess hvernig staðið er að ákvörðunum um fjöldatakmarkanir. Það byggist á lögum um Háskóla Íslands og síðan reglugerð um Háskóla Íslands en menntmrh. leitar staðfestingar forseta Íslands á reglugerðinni fyrir háskólann að fengnum tillögum háskólaráðs þannig að frumkvæði í málinu er á vettvangi háskólaráðs þegar breyta á reglugerðinni en í 74. gr. reglugerðarinnar segir að ef fjöldi stúdenta sem stenst próf í lok haustmisseris í læknisfræði er meiri en svo að veita megi þeim öllum framhaldskennslu við aðstæður á hverjum tíma geti háskólaráð eftir rökstuddum tillögum læknadeildar takmarkað fjölda þeirra sem halda áfram námi. Það er því háskólaráð sem byggir á rökstuddum tillögum læknadeildar sem tekur ákvarðanir um fjölda þeirra sem halda áfram námi í læknadeildinni.

Forseti læknadeildar, Einar Stefánsson prófessor, hefur vegna þessarar fyrirspurnar lagt til upplýsingar við menntmrn. þar sem m.a. er svarað þeirri spurningu sem hefur brunnið á vörum hv. fyrirspyrjanda um það hvers vegna breytingin varð árið 1992. Skýringarinnar á henni er að leita í þeirri staðreynd að þá hætti bráðastarfsemi á Landakotsspítala. Hún hætti fyrirvaralítið og féll þar út einn af þremur meginkennsluspítölum læknadeildar. Þetta er ástæðan fyrir því að læknadeildin lagði til á árinu 1992 að bráðastarfsemin á Landakotsspítala féll fyrirvaralítið niður og ættum við hv. þingmenn að minnast umræðna um það mál og sérstaklega hv. þm. og fyrirspyrjandi að vita það því að ákvarðanir um það efni voru að sjálfsögðu ítarlega ræddar á Alþingi og einnig í hans ágæta þingflokki. Það er þessi ástæða sem gefin er þegar læknadeildin útskýrði það hvers vegna breytingin varð.

Hins vegar er það svo að læknadeildin hefur einnig verið með aðstöðu á Akranesi og Akureyri og telur að fjárveitingar til þess að halda uppi kennsluaðstöðu á þeim stöðum séu þröngar og þess vegna sé svigrúmið ekki eins mikið og æskilegt væri. Þetta eru þær skýringar sem gefnar eru fyrir utan almenn sjónarmið um fjármál, fjárveitingar og nauðsyn þess að hækka fjárveitingar til skólastarfs og einnig til þess að launa lækna.

Þá vil ég geta þess að þegar spurt er hvort ég telji tímabært að rýmka aðgang að deildinni eða aflétta fjöldatakmörkunum þá tel ég eins og hæstv. heilbrrh. að tölurnar verði að taka mið af þörfinni og það liggur fyrir greinargerð frá 1996 sem birtist í Læknablaðinu þar sem segir að gert sé ráð fyrir að offramboð verði á íslenskum læknum fram til ársins 2010. Þessi greinargerð liggur fyrir en eins og fram hefur komið er nauðsynlegt með hliðsjón af ýmsum breyttum aðstæðum væntanlega að endurskoða spána. Komi í ljós að menn telji að þörfin fyrir lækna aukist og það verði ekki offramboð á þeim til ársins 2010 þá er sjálfsagt að taka þessi mál til skoðunar.

[14:30]

Ég tek undir með hæstv. heilbrrh. þegar hann leggur áherslu á að framhaldsnám í læknadeild verði styrkt. Það hefur verið farið inn á þær brautir á undanförnum árum og að frumkvæði menntmrn. var settur fjárlagaliður inn í fjárveitingar til Háskóla Íslands. Þar verður veitt fé til rannsóknarnáms og þessi fjárlagaliður hækkar verulega á þessu ári. Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga að hækka fjárveitingar á þennan lið um 35 millj. kr. Á þessum fjárveitingum byggist framhaldsnámið. Því er mjög mikilvægt að þingmenn hafi það í huga þegar þeir fjalla um fjárveitingar til Háskóla Íslands og lýsa áhuga sínum á að efla stöðu hans til að veita framhaldsnám að litið sé á þessar fjárveitingar. Þær ber að efla og styrkja í því skyni að háskólinn geti veitt framhaldsnám sem taki mið af ströngum, faglegum kröfum og miði að því að hér á landi sé hægt að menntast sem mest í einstökum greinum. Að þessu þarf að standa þannig að það standist alþjóðlegar kröfur og alþjóðlegan samanburð.