Fjármagnstekjuskattur

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:44:35 (3406)

1998-02-04 14:44:35# 122. lþ. 58.6 fundur 416. mál: #A fjármagnstekjuskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum ársins 1998 er gert ráð fyrir að á rekstrargrunni skili fjármagnstekjuskatturinn á yfirstandandi ári 950 millj. kr., þ.e. álagningin á þessu ári verði 950 millj., og af henni skili sér í ríkissjóð 833 millj. kr. Þá er átt við að sjóðshreyfingin sé 833 millj., þ.e. það sem hreinlega kemur inn í ríkissjóð en ekki það sem verður til eða stofnað er til. Það er ekki ástæða til þess að geta um það hve mikið bankar og aðrar innlánsstofnanir og slík fyrirtæki hafa greitt í ríkissjóð. Ég get þó sagt hv. þm. frá því að þessar stofnanir standa skil á skattinum til ríkissjóðs. Ef ég man rétt er gjalddaginn 15. janúar þannig að ég hygg að nú liggi það fyrir hve miklir peningar komi inn í ríkissjóð brúttó. Sú tala er okkur gjörsamlega gagnslaus í þessu sambandi vegna þess að fyrirtækin, þeir sem eru með rekstur og lífeyrissjóðirnir í landinu sem eiga stóran hluta fjármagnsins greiða ekki þennan skatt og fá hann endurgreiddan. Það er nettótalan sem hefur þýðingu þegar upp er staðið.

[14:45]

Ástæðan fyrir því að ég hafði efasemdir um að við gætum tekið allan skattinn, sem liggur síðan hjá einstaklingum og gert hann upp á grundvelli þeirra óska sem hv. þm. hefur lagt fram, er að margir reikningarnir í bankanum eru þess eðlis að þeir eru ekki færðir á einn einstakling heldur kannski á saumaklúbba, svo að ég nefni dæmi og þekki dæmi um það reyndar sjálfur. Það er erfitt að rannsaka það hve margir eru í saumaklúbbnum, á hvaða aldri þeir eru, hvernig það skiptist niður o.s.frv. Aðalatriði málsins er að það kerfi sem var sett í þetta er þannig að allar tekjurnar, allar vaxtatekjurnar, eru stofn og ríkið fær sitt, en við getum ekki séð (Forseti hringir.) hins vegar fyrr en í uppgjörinu í byrjun ágúst hverjir síðan telja þetta fram og hvernig. Og það er hægt að greina þá skiptingu sem þar kemur fram, eftir aldri, kynferði o.s.frv.