Störf tölvunefndar

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:47:40 (3407)

1998-02-04 14:47:40# 122. lþ. 58.7 fundur 417. mál: #A störf tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Að undanförnu höfum við séð miklar breytingar í samfélagi okkar. Við sjáum hina svokölluðu upplýsingavæðingu ryðja sér til rúms, tölvuvæðing er mikil og skráning upplýsinga. Þessi skráning er oft og tíðum mjög persónuleg og ég nefni sem dæmi sjúkraskrár sem geyma oft viðkvæm persónuleg mál. Lífsýni eru líka atriði sem við skoðuðum sérstaklega í þinginu þegar við samþykktum lög um réttindi sjúklinga. Samkvæmt þeim eru lífsýni hluti af sjúkraskrá, en lífsýni geyma afar miklar upplýsingar um hvern einstakling.

Vegna þess að við erum farin að sjá þetta nýja samfélag hér, þá er afar mikilvægt að við höfum góð lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og ég tel að lögin okkar séu ágæt. Þau vernda þessar upplýsingar sæmilega. Hins vegar verður að segja eins og er að samkvæmt lögunum á tölvunefnd að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, en að mínu mati hefur tölvunefnd allt of lítinn viðbúnað, of lítinn mannafla og of litla aðstöðu til þess að geta sinnt eftirliti nægjanlega þannig að við tryggjum þá persónuvernd sem við krefjumst samkvæmt lögunum. Tölvunefnd á að veita margs konar leyfi til stofnana, fyrirtækja og einstaklinga sem vilja safna upplýsingum og skrá þær. Tölvunefnd á líka að vera með eftirlitið þannig að tryggt sé að eftir reglum sé farið.

Í dag er tölvunefnd skipuð fimm mönnum en þeir eru allir í fullu starfi annars staðar en í tölvunefndinni. Tölvunefnd hefur einungis starfsmann að hluta til, sem sagt ekki í fullu starfi og síðan eru nokkrir eftirlitsmenn sem reyna að sinna eftirliti. Álagið er gífurlega mikið eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu. Yfir 400 erindi á hverju einasta ári berast til tölvunefndar þannig að afar lítill tími gefst í virkt eftirlit. Það má segja að tölvunefnd sé að drukkna í álagi. Erlendis eru sambærilegar stofnanir miklu sterkari og fjölmennari.

Ég held að það sé afar brýnt að hæstv. dómsmrh. upplýsi okkur hvað hann hyggist gera, þar sem það er alveg ljóst að það er öllum til hagsbóta að tölvunefnd geti sinnt sínu hlutverki, t.d. þeim fyrirtækjum sem eru að fá leyfi og þeim sem stunda t.d. vísindarannsóknir. Og það er líka mjög mikilvægt fyrir fólkið í landinu að vita að tölvunefnd getur sinnt lögbundnu eftirliti þannig að persónuvernd sé tryggð.