Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:13:07 (3415)

1998-02-04 15:13:07# 122. lþ. 59.6 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:13]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að segja örfá orð við þessa umræðu. Ég held að um þáltill., um eflingu sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum, megi segja að hreyft sé heilmiklu máli sem skiptir þjóðina miklu og að menn hugsi um hvernig þjóðin byggir og varðveitir landið allt. Þess vegna tel ég þáltill. tímabæra og eðlilegt að þingið fari yfir á mörgum sviðum hvernig hægt er að koma þessum byggðum og því fólki sem þar á sína lífsafkomu til hjálpar.

Það er enginn vafi í mínum huga að enginn einn hópur hefur tekið á sig jafnmiklar fórnir og sauðfjárbændur á liðnum árum nema ef vera skyldu loðdýrabændur. Þess vegna er staðan sú að við stöndum frammi fyrir erfiðleikum í mörgum byggðarlögum vegna fólksflótta og versnandi afkomu þar. Ég er kannski ekkert á því að deilan eigi einmitt að snúast um að taka sauðfé af einum og færa það til annars, þó að í þeim efnum megi vissulega spyrja hvort það geti háð sauðfjárræktinni í dag, sem ég tel vera á réttri leið, að gæðastjórnun og aftur gæðastjórnun, þ.e. nýting á öllum þeim hráefnum sem af sauðkindinni koma, muni gera það að verkum að þessi grein eigi framtíð fyrir sér fyrir utan hitt, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, að þessi atvinnugrein verður ekki frjáls og bændur ekki frjálsir nema þeir eignist á ný erlenda markaði sem gefa viðunandi verð. Ég vil því taka undir það. En auðvitað getum við velt því fyrir okkur hvort það hái greininni að beingreiðslurnar, sem eru hluti framleiðsluverðsins, eru fastar og að greinin mundi þróast með öðrum hætti ef svo væri ekki og ég velti þessu því inn í umræðuna.

Ef einhver í Kjósinni vildi flytja á Strandir með sitt sauðfé, eða sonur eða dóttir viðkomandi fara héðan til að búa þar, þá eru beingreiðslurnar ekki færanlegar. Allir verða að gera sér grein fyrir því að beingreiðslur eru fyrst og fremst niðurgreiðsla á matvælum og hluti af framleiðsluverðinu.

Byggðastofnun vann mjög merkilega skýrslu í haust sem segir mikið um stöðu greinarinnar. Við skulum fara yfir, með leyfi forseta, helstu niðurstöður, og ég bendi á þrjá punkta:

,,Árið 1994 höfðu um 600 sauðfjárbændur og makar þeirra litlar sem engar aukatekjur utan bús. Áætlaðar tekjur þeirra eru mun lægri en meðalatvinnutekjur hjóna á landinu öllu.``

Og til að bera það saman við annað sem gerðist líka:

,,Ráðstöfunartekjur einstaklinga í landinu öllu hækkuðu um 5,5% frá 1991--1996. Á sama tímabili lækkaði launagreiðslugeta sauðfjárbúa um 35%.``

Og enn fremur:

,,Kílóverð af lambakjöti til bænda lækkaði um 13,6% frá 1991--1996, en smásöluverð lækkaði um 3,9%. Því hefur samband á milli markaðsverðs og verðs til framleiðenda (framleiðslukostnaður) orðið veikara.``

Þarna sjáum við hversu miklu hefur verið fórnað. Í umræðunni má vissulega velta því fyrir sér, þar sem til er mælikvarði um hversu margir starfa við búið, að í jaðarbyggðum á fólk ekki kost á annarri atvinnu til að bæta tekjur sínar og þá er spurningin um hvort atvinnuleysisbætur til annars aðilans gætu um sinn styrkt bæði framtíðina á viðkomandi stað og þá stöðu meðan fólk er að bíða eftir, að ég vona, nýrri sókn.

Þessu vildi ég velta upp við umræðuna. Ég segi sem Íslendingur, sem ferðast hefur um þetta land, að ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við hugum nú að þeim jaðarbyggðum því þar er unnið merkilegt starf og það er mikilvægt fyrir þjóðina alla að mannlíf sé sem víðast um landið. Þess vegna kemur hitt inn í, sem Byggðastofnun veltir inn í umræðuna í skýrslu sinni og segir á þá leið, að það sé mikilvægt að huga að fjölbreyttu og arðbæru atvinnulífi sem sé undirstaða búsetunnar. Þess vegna eru það auðvitað nýjar greinar atvinnulífs, styrking þeirra, þ.e. nýting landsins og hlunnindanna og ný atvinnusköpun á mörgum sviðum sem getur líka komið til hjálpar alveg eins og átök um það hvert menn færa sauðféð. En ég er sannfærður um að við erum á elleftu stundu hvað margar jaðarbyggðir varðar, og sem Íslendingur vil ég huga að því að ekki verði það slys að við töpum þeim tökum að margar glæsilegar byggðir sem mikilvægt er að mannlíf haldist í hverfi. Þess vegna er þáltill. flutt á elleftu stundu en mér finnst hún vera mikilvægt innlegg í að hugsa þessi mál upp á nýtt og það munum við vissulega reyna að gera í landbn. Ég vænti þess að sú tillaga fari einnig t.d. til búnaðarþings og verði til umræðu á flestum stöðum þjóðfélagsins.

Ég lýk orðum mínum með því að mikilvægt er að einblína ekki bara á sauðfjárræktina í þessu efni heldur svo margt annað sem nú á möguleika, ný atvinnusköpun, ný verkefni þannig að það sé einnig tekið inn í þessa tillögu og grunnur hennar breikkaður því að bændurnir eiga í mínum huga fyrst og fremst að huga að einu --- þeir verða að standa saman sem heild í landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði.