Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:21:25 (3416)

1998-02-04 15:21:25# 122. lþ. 59.6 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:21]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja nokkur orð í belg í umræðunni um þá þáltill. sem hér er til umræðu, um eflingu sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum.

Það er enginn vafi í mínum huga að hér er mjög mikilvægt mál til umræðu og ég vil nota tækifærið og þakka flutningsmönnum fyrir að koma með tillöguna fram.

Ljóst er að jaðarsvæði á landinu, þar sem sauðfjárræktin hefur vegið hvað þyngst, eiga virkilega undir högg að sækja og byggðirnar eru því miður orðnar töluvert grisjaðar víða á þessum svæðum og þar með komnar í ákveðna hættu. Umræða um þetta málefni er auðvitað nátengd umræðunni um byggðamál almennt og þess vegna vel við hæfi að ræða þetta mál ítarlega.

Eins og fram hefur komið og bent er á í grg. tillögunnar eru þau landsvæði, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, vel fallin til sauðfjárræktar. Þar eru beitilönd góð og að því leytinu til ætti að vera öflugur sauðfjárbúskapur á þeim svæðum. En eins og kemur einnig fram í grg., í tölulegri samantekt m.a., hefur sauðfjárræktin dregist mikið saman og það sama á reyndar við um annan landbúnað og landbúnaðarframleiðslu á þeim svæðum, því miður. Ég held að sá kaldi veruleiki blasi við, ef ekkert gerist í þessum málum, að þessi búgrein muni dragast enn meira saman á þeim jaðarsvæðum, sem ég hygg að menn séu fyrst og fremst að ræða um. Meinið er kannski það m.a. að nánast lítil sem engin nýliðun er í þessari atvinnugrein. Þetta er vissulega mikið áhyggjuefni og okkur ber auðvitað skylda til að ræða þessi mál og fara ofan í þau og leita leiða hvort við getum ekki komist niður á einhverjar leiðir til þess að breyta um.

Í þessu tilefni er einnig rétt að benda á að í þessum landshlutum, svo ég nefni sérstaklega norðvesturhorn landsins, hefur til viðbótar við þá þróun í sauðfjárræktinni orðið ákveðin öfugþróun í sjávarútvegi og fólki hefur fækkað mjög verulega á þessum landsvæðum. Þær staðreyndir hljóta að valda stjórnvöldum og okkur alþingismönnum verulegum áhyggjum og raunverulegum áhyggjum þegar litið er til slíkrar byggðaþróunar. Þetta er því nátengt annars vegar atvinnugreininni og þróuninni í henni og byggðaþróuninni á viðkomandi svæðum.

Það hefur verið nefnt í umræðunni hve þrengt hefur að í kjörum sauðfjárbænda á síðustu allmörgum árum. Ég ætla í sjálfu sér ekki að orðlengja það, en það er engu að síður staðreynd sem liggur fyrir. Ég eins og fleiri bind vonir við að heldur sé að rétta af í þeim efnum. Ég hygg að sýnt hafi verið fram á það að sá búvörusamningur sem gerður var síðast um sauðfjárræktina er þegar farinn að skila ákveðnum árangri. En í þessum efnum eins og öðrum er markaðurinn og markaðsmálin auðvitað grundvöllurinn. Ekki er hægt að framleiða þessar framleiðsluvörur frekar en aðrar ef ekki er fyrir markaður. Og ég er þeirrar skoðunar þegar rætt er um möguleika sauðfjárafurðanna að varla sé raunhæft að gera ráð fyrir því að innanlandsneysla á lambakjöti aukist á næstu árum. Það er mín skoðun. En þó er hugsanlegt að segja að einhver neysluaukning verði samfara þeirri þróun sem er þegar farin af stað, þ.e. að sláturtíminn sem var lengi vel hefðbundinn hefur lengst og farið er að slátra sauðfé á lengra tímabili yfir árið en áður var. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og það sé e.t.v. sú leið sem mögulegt er að fara ef við ætlum að reyna að auka innanlandsneyslu á lambakjöti.

Ég tel hins vegar að framtíðin fyrir þessa grein byggist öðru fremur á því að okkur takist að nýta möguleika sem eru fyrir hendi á erlendum mörkuðum og ég tel að þeir séu víða fyrir hendi. En að sjálfsögðu verðum við að vara okkur á að vera með óraunhæfa bjartsýni í þeim efnum.

Ég átti þess kost fyrir stuttu að vera á ferð í Belgíu þar sem ég kom í verslun sem seldi íslenskt lambakjöt. Þar var okkur sagt að íslenska lambakjötið væri langtum betra að gæðum en lambakjöt frá öðrum löndum. Þetta er náttúrlega mál sem við höfum vitað og höfum gjarnan haldið fram en þarna fengum við staðfestingu á þessu. Hins vegar er vandamálið það að markaðurinn þolir ekki, enn sem komið er, það verð sem við þurfum að fá til þess að slíkur útflutningur beri sig að einhverju marki.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni varðandi markaðsmálin. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir þessa atvinnugrein að nýta sér það sölunet sem sölusamtök í sjávarútvegi hafa byggt upp úti um allan heim. Dæmi eru um að þau sölusamtök hafa skilað árangri í sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum og ég tel að þar felist ýmsir möguleikar í slíku samstarfi. En eins og ég segi, verðið á afurðunum er þannig að það sem hægt er að fá fyrir þær á erlendum mörkuðum --- það er kannski enn þá of lágt til að það gangi upp en þó hefur þetta allt verið í áttina en lykilatriðið er auðvitað að ná niður tilkostnaði innan lands við slátrun og ýmsa aðra liði þannig að bændur fái hærra verð í sinn hlut.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu lengra mál um tillöguna en ég ítreka að ég er þakklátur fyrir að fá að ræða þetta. Ég tel þetta mjög mikilvægt mál og landbn. þarf að fara mjög rækilega yfir þetta, og ekki eingöngu hún, því þetta tengist auðvitað byggðamálunum. Tillagan er því mjög gott formlegt innlegg í umræðuna. Ég vona að umræðan um þau mál verði á þeim nótum að okkur takist að finna leiðir til að efla sauðfjárræktina á þessum svæðum sem sannarlega er mjög mikilvægt og eins og hv. formaður landbn. sagði hér: Málið er til umræðu á elleftu stundu --- ég tek undir þau orð.