Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 10:53:39 (3427)

1998-02-05 10:53:39# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[10:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega sögulegt að hér skuli vera fyrstur á mælendaskrá eftir framsögumanni frv. um þjóðlendur, hæstv. félmrh. Hæstv. ráðherra hefur valið skynsamlegan kost sýnist mér. Þó ég hafi ekki farið yfir þessa brtt. sem hann er að leggja hér fram við stjfrv. til sveitarstjórnarlaga, þá sýnist mér fljótt á litið að þar sé að minnsta kosti verið að leiðrétta aldeilis ótæka galla sem voru á frv. til sveitarstjórnarlaga. Ég vil nú þakka hæstv. félmrh. fyrir að koma hreint til dyranna og viðurkenna að þarna hafi verið hrapað að máli af hans hálfu og ríkisstjórnarinnar væntanlega allrar sem ber ábyrgð á framlagningu málsins og ekki seinna vænna að koma því á framfæri. Á þetta var bent rækilega við 1. umr. um frv. til sveitarstjórnarlaga og þá leituðust ráðherrar við að verja það og töldu að hér stönguðust ekki á ákvæði stjórnarfrumvarpanna, frv. um þjóðlendur og frv. til sveitarstjórnarlaga, en það er þó augljóst eftir það sem hér hefur komið fram að hæstv. ráðherrar hafa að nánar athuguðu máli, þ.e. hæstv. félmrh., komið fram með leiðréttingu. Ég tel það góðra gjalda vert. En að öðru leyti þarf auðvitað að gaumgæfa þetta atriði.