Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 10:56:56 (3430)

1998-02-05 10:56:56# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[10:56]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt að félmrh. hefur nú viðurkennt að þeir sem gagnrýndu bráðabirgðaákvæðið í frv. hans um breytingar á sveitarstjórnarlögum höfðu rétt fyrir sér. En það er ekki meginatriði málsins þó hann viðurkenni það því hann hefði ekki komist hjá því að viðurkenna það í meðförum málsins á Alþingi. Meginefni málsins er það að með þessari brtt. er félmrh. ekki að gera neinar breytingar á þeirri stefnu að skipta hálendinu öllu upp í stjórnsýslusneiðar eftir mörkum sveitarfélaga sem mun gera það að verkum að öll skipulagsmál á hálendinu og nýting þess, verður margfalt erfiðari en ástæða væri til. Þessari meginstefnu hefur ráðherrann ekki breytt og ég vara við því að svo skuli gengið frá málum vegna þess að það mun skapa stórkostleg vandamál í framtíðinni í sambandi við nýtingu þessara auðlinda og stjórnsýslu á hálendinu.

Annað athyglisvert kom þó fram hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. forsrh. bað um að umræður hér á eftir yrðu einskorðaðar við þetta tiltekna mál, frv. til laga um þjóðlendur. Eins og hæstv. forsrh. sagði sjálfur tengjast fjölmörg önnur mál sem eru til meðferðar á Alþingi frv. um þjóðlendur og hæstv. félmrh. hefur látið það vera sitt fyrsta verk að draga þau mál inn í þessa umræðu eins og óhjákvæmilegt er.