Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:27:30 (3439)

1998-02-05 11:27:30# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:27]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Rökin hafa verið þekkt í 28 ár. Nefndin sem hæstv. forsrh. talaði um þurfti 14 ára starfstíma. Var það vegna þess að málið væri svo flókið? Nei, það var ekki vegna þess. Það var vegna þess að ágreiningur var um efnisatriði og framgang málsins.

Ég minni hæstv. forsrh. á að í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. stendur orðrétt, með leyfi forseta:

,,Jafnframt hyggst ríkisstjórnin skýra ákvæði um mörk eignarlands og almenninga og veita aðilum er sinna gróður- og skógrækt aðgang að jörðum í ríkiseign``

Um þetta var því samið þegar sú ríkisstjórn tók til starfa. Það voru, á meðan sú ríkisstjórn starfaði, í það minnsta þrisvar sinnum gerðar tilraunir til þess að fá samþykkt ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna við frumvörp um þau efni, en það tókst aldrei þrátt fyrir að um þetta væri samið í stjórnarsáttmálanum. Það er skýringin á því af hverju það hefur tekið 28 ár að fá efnisatriði málsins afgreidd á Alþingi og af hverju það tók umrædda nefnd 14 ár að ná niðurstöðu í máli og komast að sömu niðurstöðu og fólst í þáltill. þingmanna Alþfl. fyrir 28 árum.