Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:30:17 (3441)

1998-02-05 11:30:17# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið er ekkert flóknara en svo að árið 1975 fluttu þingmenn Alþfl. frv. um eignarhald á landi og um sameiginlega eign þjóðarinnar á landi. Í því frv. var lagt til að farin yrði nákvæmlega sama leið, að skipuð yrði óbyggðanefnd eins og hér er verið að ræða um 21 ári síðar. Tillögur í frumvarpsformi um þá framkvæmd sem nú á að fara í eru meira en 20 ára gamlar í sögu Alþingis. Því ítreka ég það sem ég sagði: Það að málið væri flókið eða nýtt hefur ekki torveldað afgreiðslu þess í 28 ára sögu Alþingis. Skýringin er mjög einföld. Það er ekki fyrr en nú eftir öll þessi ár að þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. hafa sannfærst um að rétt væri að taka eitthvert tillit til almannahagsmuna.