Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:31:52 (3442)

1998-02-05 11:31:52# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:31]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er löngu orðið brýnt að taka af öll tvímæli um eignarhald á landi í óbyggðum og ákvarða mörk eignarlanda í almenningum og afréttum. Ég tel því mikið fagnaðarefni að fram sé komið það frv. sem hæstv. ríkisstjórn flytur hér. Ég tel frv. á margan hátt ágætlega samið og að þeir vísu menn sem þar lögðu hönd á plóg hafi komið málinu í skynsamlegan farveg eins og hæstv. forsrh. komst að orði hér rétt áðan. Ég er því eindregið jákvæður gagnvart þessu máli.

Þetta segi ég þó ég hafi reyndar í rúm 30 ár flutt frv. hér á Alþingi sem fjallar um nákvæmlega sama efni en efnistök eru gerólík og málsmeðferð séð frá allt öðrum sjónarhól en hér er gert. Niðurstaðan í þessu frv. er það keimlík því frv. sem ég hef flutt á fjórða áratug að ég get ekki annað en glaðst yfir því að málið sé komið á það spor sem ég hef lengi lagt til. Hér á ég við frv. okkar um stjórnarskrárbreytingu. Þar er gert ráð fyrir að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda, teljist sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi. En þar stóð einnig, með leyfi forseta:

,,Með þeim takmörkunum, sem hér greinir, skal við það miða að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.``

Eins og sjá má er hér fjallað um nákvæmlega sama efni hvað landareignir snertir og gert er í þessu frv. Reyndar er stjórnarskrárfrv. okkar alþýðubandalagsmanna mun víðtækara en þetta frv. vegna þess að það tekur einnig á eignarhaldi og nýtingu auðlinda í jörðu og í sjó. Um þann mun er ástæðulaust að fjölyrða enda verður síðar í dag rætt um frv. ríkisstjórnarinnar um þau efni. En hitt er auðvitað ljóst að nú nálgast menn viðfangsefnið á allt annan hátt en ég hafði gert tillögu um. Í okkar tillögu var gert ráð fyrir að það væri tekið af skarið um stefnumótun á þessu sviði í stjórnarskrá. Í frv. ríkisstjórnarinnar er áherslan aftur á móti lögð á vinnubrögðin við að komast að niðurstöðu. En frv. okkar, stjórnarskrárfrv., og frv. hæstv. ríkisstjórnar mætast í þremur punktum.

Í fyrsta lagi er því slegið föstu að landsvæði utan eignarlanda séu eign ríkisins, þ.e. sameign þjóðarinnar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að óbein eignarréttindi haldist. Þetta kemur skýrt fram í 5. gr. í frv. ríkisstjórnarinnar. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.``

Þetta höfum við alþýðubandalagsmenn eins og ég hef þegar rakið orðað á þann veg að bændur skuli halda eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.

Þriðji punkturinn sem þessi frumvörp mætast í er sá að á skuli lagt auðlindagjald vegna nýtingar þessara auðlinda.

Í stjórnarskrárfrv. því sem við höfum flutt er komið að málinu á þann veg að rétturinn er skilgreindur í stjórnarskrá og takmörk réttarins einnig, staða bænda ákveðin og mörkin dregin. En stjórnarfrv. það sem hér er til umræðu er fyrst og fremst lögbinding á aðferðinni til að skera úr ágreiningi um þessi efni. Af þessu tilefni vek ég athygli á stjórnarskrárfrv. sem verður til umræðu á eftir og ég mun þá gera nánari grein fyrir þessu. Það á að sjálfsögðu fullan rétt á sér þrátt fyrir samþykkt þessara laga vegna þess að efnið er þess eðlis að það á sannarlega heima í stjórnarskrá. Með stjórnarskrárákvæði er verið að tryggja að ekki sé auðveldlega hægt að svipta þjóðina þeim rétti sem hún hefur. Auðvitað er mikill munur á því hvort réttindi eru bundin í lögum eða stjórnarskrá.

Ég tel það ánægjuefni að hér skuli gert ráð fyrir auðlindagjaldi eins og í okkar tillögu og eins er það sameiginlegt með tillögu okkar og tillögu ríkisstjórnarinnar að hér er gert ráð fyrir hóflegri gjaldtöku. Það er ekki gert ráð fyrir því að lagðar séu einhverjar drápsklyfjar á einstaka atvinnuvegi með óhóflegum sköttum á auðlindina en miðað við hóflega gjaldtöku sem fyrst og fremst sé varið til endurbóta innan þjóðlendnanna í þessu tilviki. Í frv. okkar er miðað við að gjaldtökunni sé fyrst og fremst varið til þess að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu auðlindanna, stuðla að rannsóknum á þeim en ekki sé um að ræða almenna stórfellda skattlagningu sem kæmi þá í staðinn fyrir aðra skattlagningu eins og vissulega hafa verið uppi hugmyndir um hér á Alþingi. Á þessu tvennu er verlegur munur, hvort lögð eru stórtæk gjöld á einstaka atvinnuvegi sem numið gætu tugum milljarða kr. eða hvort um er að ræða hóflega gjaldtöku sem fyrst og fremst er varið til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Að þessu leyti er stefna Alþb. í fullu samræmi við þá meginlínu sem lesa má út úr þessu frv. hvað varðar auðlindagjaldið.

Eftir sem áður er því ekki að leyna að álitamálin eru fjöldamörg. Þetta frv. leysir ekki vandann að öllu leyti. Eitt af þessum álitamálum er hvernig fara skuli með vatnsorku. Í stjórnarskrárfrv. okkar alþýðubandalagsmanna hefur áherslan alla tíð verið lögð á að vatnsorkan skuli vera sameign þjóðarinnar en í þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar er ekki að finna nein orð sem víkja að vatnsorku. Að vísu er í 2. gr. frv. talað um að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti en hugsanlega gæti það vafist fyrir einhverjum hvort þetta nær til vatnsorku. Ég ætla þó að spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að með þessu orðalagi sé einnig náð til þeirrar miklu auðlindar sem felst í orku rennandi vatns. Ég vildi biðja hæstv. forsrh. að svara þeirri spurningu á eftir og taka af skarið hvað þetta varðar. Ég finn ekki bein ákvæði um vatnsorku í frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem kannski er ekki nema von vegna þess að varla er hægt að segja að orka í rennandi vatni sé auðlind í jörðu. Vatnsorkan væri þá frekar auðlind á jörðu. Kannski stafar þetta af því að vissulega eru til orkulög en ég vek á því athygli að í orkulögum eru ekki tekin af tvímæli hvað þetta varðar.

Vatnsorkan er einhver mestu auðæfi Íslendinga, ein af okkar dýrmætustu auðlindum og hún verður nýtt í mjög stórum stíl á komandi árum. Það hefur viðgengist að ríkið tæki ákvörðun um að þessi eða hinn virkjunaraðilinn fái í hendur virkjunarrétt án þess að greiðsla komi þar fyrir. Ég veit t.d. ekki til þess að Landsvirkjun hafi þurft að greiða fyrir virkjunarrétt þegar hún hefur byggt sínar stóru virkjanir við Búrfell, Sigöldu, Hrauneyjafoss eða Blöndu. Hún hefur vissulega ekki greitt landeigendum fyrir þennan rétt. Íslenskur réttur hefur ekki viðurkennt að vatnsorka á hálendinu og utan heimalanda hafi verið háð eignarrétti bænda.

[11:45]

En eðlilegt virðist að gert væri ráð fyrir því að þeir sem byggja virkjanir sem kosta tugi milljarða þurfi að borga þjóðinni eitthvað fyrir afnot af slíkum auðlindum, sérstaklega þegar haft er í huga að Landsvirkjun, sem hefur einkum og sér í lagi byggt slík orkuver á síðari árum, er ekki sameign þjóðarinnar. Hún er að hálfu leyti eign ríkisins en að hálfu leyti eign Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og hefur síðan verið að greiða þeim eigendum sínum arð í stórum stíl. Manni finnst ekki nema sjálfsagður hlutur að fyrir þessa miklu auðlind greiði sá sem virkjar nokkurt gjald í almenna sjóði.

Ég sagði áðan að margt orkaði tvímælis og áfram væri ágreiningur um marga þætti málsins. Um leið og ég fagna frv. og tel það mjög jákvætt minni ég samt á ágreininginn. Ég minni á að ágreiningur er um sveitafélagafrv. en mér finnst kannski eðlilegra að ræða þann ágreining frekar þegar það frv. er á dagskrá í þinginu þó að ég sé út fyrir sig ekkert að gagnrýna að það mál skuli hafa komið eitthvað til umræðu hér nú þegar.

Eins er mikill ágreiningur um meðferð á jarðhita. Það er skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að jarðhiti á yfirborði eigi tvímælalaust að vera háður einkaeignarrétti eins og verið hefur öldum saman og allt fram á þennan dag. Hins vegar höfum við talið að einhvers staðar ætti að draga mörkin og annaðhvort ætti þá að miða við hitastigið, þ.e. hvort um væri að ræða háhitasvæði eða lághitasvæði, ellegar hitt hvað borað væri djúpt niður í jörðu. Við höfum talið að jarðhiti sem væri undir einhverjum vissum mörkum ætti að teljast sameign þjóðarinnar. Í frv. okkar höfum við miðað við 100 metra dýpi. Margar hugmyndir og tillögur í þessum efnum hafa komið fram og ég ætla ekki að gera svo mikið upp á milli þeirra, ég tel að þær komi út af fyrir sig margar til greina. Alveg væri hægt að hugsa sér að miða við hvort um væri að ræða skilgreindan háhita eða lághita og eins mætti hugsa sér 200 metra dýpi eins og 100 metra dýpi, ég geri ekki mikinn mun á því.

Ég tel hins vegar einsýnt að það standist ekki að jarðeigandi eigi allt sem felst í jörðunni undir landi hans, allt inn að miðpunkti jarðar, þúsundir kílómetra djúpt niður í jörðu. Það segir sig nokkuð sjálft að slíkt stenst ekki almenna skynsemi. Ég sé ekki betur en að í frumvörpum ríkisstjórnarinnar sé viðmiðunarreglan að reikna megi með því að landeigandi eigi bara allt undir sinni jörð inn að miðpunkti jarðar. Það tel ég ekki að standist neina skynsemi og þarna verði að setja einhver mörk.

Ég minni líka á að um þetta hafa íslenskir fræðimenn verið sammála mér. Ég minni á margar ritgerðir Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. forsrh. og fyrrverandi prófessors í eignarrétti og stjórnskipunarrétti, og ég minni á álitsgerðir Ólafs Lárussonar prófessors en þeir voru báðir þeirrar skoðunar að það stæðist ekki að landeigandi ætti rétt til jarðhita og annarra réttinda, hversu djúpt í jörð sem sótt væri. Þetta kemur skýrt fram í ritgerð Ólafs Jóhannessonar sem hann skrifaði árið 1957 og einnig í bók Ólafs Lárussonar, Eignaréttur. Þeir miða við venjulega hagnýtingu fasteigna yfirleitt og spyrja sig: Er um að ræða venjulega hagnýtingu fasteigna eða ekki? Sé ekki um að ræða venjulega hagnýtingu fasteigna telja þeir að einhvers staðar verði að draga mörkin.

Hér hefur lítillega komið til umræðu hver hafi fyrstur flutt tillögur á Alþingi um að óbyggðir, almenningar og afréttir, séu ekki háðar einkaeignarétti og um þau efni þurfi að setja reglur. Ég ætla ekki að fara að metast allt of mikið við hv. 4. þm. Vestf. um það hver flutti fyrstur tillögur um þetta efni í þinginu en ég minni hann samt á það vegna orða hans áðan að ég flutti tillögur um þetta efni þegar í kringum 1965, þ.e. fyrir 33 árum, og vísa þar í stjórnarskrárfrv., 6. gr., þar sem einmitt er slegið föstu að almenningar, afréttir og aðrar lendur og svæði séu ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Ég hef því miður ekki tíma til þess að fjalla frekar um þennan þátt málsins en geri það kannski síðar í dag þegar betra tækifæri gefst til.