Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:52:20 (3443)

1998-02-05 11:52:20# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:52]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. nefndi er það skoðun mín og þeirra sem ég ráðgast við að ákvæði frv. um þjóðlendur taki fyrir sitt leyti á þáttum eins og rennandi vatni innan vébanda þjóðlendna þannig að þar væri jafnframt hægt að beita gjaldtökuákvæði 3. gr. í þeim lögum.

Í hinu frv. sem hv. þm. nefndi segir í 31. gr., með leyfi forseta:

,,Til nýtingar á auðlindum í þjóðlendum þarf auk þess leyfi samkvæmt þessum lögum, leyfi samkvæmt ákvæðum laga um þjóðlendur o.fl. Um samninga um endurgjald fyrir auðlindir í þjóðlendum og leigu fyrir nauðsynlegt land og önnur réttindi sem leyfishafi þarf til að hagnýta auðlind í þjóðlendum sem leyfið tekur til fer eftir reglum laga um þjóðlendur o.fl.``

Ég hygg að þetta sé eina ákvæðið um endurgjald eða leigu í því frv. Vísað er til þessa frv. um það efni. Hins vegar yrði sú gjaldtaka vísast takmörkuð eins og hv. þm. nefndi. Um er að ræða hóflega gjaldtöku sem á að nýtast til sjálfbærrar þróunar innan þjóðlendna og er því ekki um eiginlega skattheimtu að ræða í þeim skilningi.