Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:21:18 (3452)

1998-02-05 12:21:18# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að alveg megi velta fyrir sér hvort það hafi tilgang að vera að velta fyrir sér þessari sögu en þingmaðurinn kýs það. Honum er fullkunnugt um að sú tillaga sem Eiður Guðnason umhvrh. kom með hingað á Alþingi var felld. Seinna kom til þess að ákveða að setja upp samvinnunefnd. Hins vegar eiga Eiður Guðnason umhvrh. eða Össur Skarphéðinsson sem umhvrh. engan þátt í því að marka stefnu um að stjórnsýslulegt vald fari til allra sveitarfélaganna sem að hálendinu liggja. Annað hef ég ekki um það mál að segja.

Virðulegi forseti. Af því að þingmaðurinn nefndi að gott væri að hafa þingmenn á þingi sem myndu áratugi aftur í tímann, þá er það alveg hárrétt. Það er ekki nema um einn áratugur sem ég hef verið hér á hv. Alþingi. En svo vill til að ég hef haldið til haga þeim málum sem flutt hafa verið af fyrirrennurum mínum og félögum eftir að ég kom inn á þing. Öll þessi ár var kallað eftir því að ríkisstjórnin stuðlaði að samningu frv. um eignarrétt yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita, hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu. Á síðari tímum þegar engin leið var að fá stuðning við þessi mál á Alþingi þannig að þau hefðu framgang, var farið út í að reyna að brjóta þessi mál upp og ná afmörkuðum þingmálum í gegn sem stefndu að sama markmiði.

Stundum er sagt að dropinn holi steininn eða það síist inn og þess vegna fögnum við nú þegar forsrh. kemur með þetta ágæta frv. Þó ég hafi getið um þá annmarka sem við sjáum á því, þá fagna ég þessu frv. og við jafnaðarmenn munum styðja það.