Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 13:03:24 (3459)

1998-02-05 13:03:24# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[13:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins út af nokkrum atriðum sem komu fram hjá hv. þm. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þetta frv. trufli neitt mál er varðar aðstöðugjöld sveitarfélaga eins og nefnt var. Aðstöðugjöld sveitarfélaga voru lögð niður fyrir fáeinum árum og koma því ekki hér til kasta.

Í annan stað vil ég ítreka það að í meginatriðum eru menn að afmarka og ákvarða eignarréttarþáttinn sem vantað hefur á þessum svæðum sem hér eru til umræðu og sú ákvörðun breytir ekki neinu um sérlög sem lúta að skipulagsmálum, byggingarmálum, umhverfismálum eða öðrum slíkum þáttum þannig að þar stendur allt saman óbreytt og er ekki hróflað við því með þessu frv.

Í þriðja lagi tel ég ekki að neinn sérstakur samhljómur sé með þessu frv. sérstaklega og lögum um stjórn fiskveiða og átta mig ekki alveg á því af hverju það er dregið inn í myndina í svo ríkum mæli og hér er gert. Hér þurfti að leysa úr, af brýnni nauðsyn, spursmálum um eignarhald til þess að úrlausn gæti fengist í máli sem þau varðar. Engir slíkir þættir eru til staðar varðandi stjórnun fiskveiða þó að menn kunni að hafa sjónarmið uppi um það sem þeir kalla réttlætismál og þess háttar í því sambandi. Ég sé því ekki að menn eigi að fjalla um þessi tvö mál saman. Þau eiga fátt skylt.