Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:56:50 (3485)

1998-02-05 14:56:50# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. þá er eigendaforræði forsrh. margvísleg takmörk sett í þessu frv. og í öðrum lögum sem verða áfram í gildi. Í frv. er um að ræða nýtingarrétt og þess háttar. Það má nefna lög um veiðiskap og þess háttar og önnur frv. sem verða rædd hér síðar meir þannig að eigendaforræðið er með mjög öðrum brag en ef tekið er einfalt og venjulegt eigendaforræði á fasteign. Það er því engin hætta á því, held ég, að forsrh., hver sem hann er, kunni að loka landinu.

En hvers vegna erum við að vinna að þessum málum á þann hátt sem við erum nú að gera? Hlutirnir hafa breyst þannig að menn geta ekki lengur haft þá í óvissu. Það var hægt áður fyrr varðandi miðhálendið vegna þess að það var sáralítið nýtt og árekstrar litlir sem engir en þær aðstæður hafa breyst. Það er alveg sama og gerðist varðandi nýtingu á hafinu, á landhelginni. Þar var ekki lengur hægt að láta menn valsa frjálsa vegna þess að það dugði ekki, það varð að finna á því skikk. Einhvern tíma hefði manni þótt undarlegt ef þannig gæti farið að meira að segja andrúmsloftið yrði ríkisvætt. Við erum nú kannski að stefna í það á næstu áratugum að það verði a.m.k. heimsvætt. Það verði niðurstaða þjóðanna að andrúmsloftið sé sameign veraldarinnar og þurfi að koma skikki á það með tilteknum hætti. Það er neyðin sem rekur okkur í þessa átt af því að menn kunna ekki aðra leið til þess að koma skikki á málin og finna ekki betri stöðu til þess en þá sem við erum að vinna að núna.