Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:59:08 (3487)

1998-02-05 14:59:08# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:59]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir stutta ræðu. Það er sjaldgæft að heyra svona stuttar og hnitmiðaðar ræður en hv. þm. gat samt ekki í sinni stuttu ræðu hamið sig frekar en aðrir og fór inn á sveitarfélagafrv., 1. gr. þess, og mig langar aðeins að spyrja hv. þm. út í það.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að mjög óeðlilegt væri að 5% þjóðarinnar ættu að skipuleggja miðhálendið og með skipulagsmálum mætti hefta aðgang að miðhálendinu. Ég held að það sé ekki meiningin að neinn fari að gera það, en ég get tekið undir með þingmanninum að frekar óheppilegt er að einungis 5% þjóðarinnar skuli fara með þetta vald. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að þó að hver einasti Íslendingur byggi í þessum hálendissveitarfélögum, þá væri þetta jafnrangt vegna þess að rangt er að skipta skipulagslegri heild upp á milli 40 aðila. Ég vil því spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort hann sé mótfallinn 1. gr. laga um sveitarstjórnarmál, sem við höfum talað um í þinginu. Mér var það ekki ljóst að hann væri hugsanlega mótfallinn þeirri grein og mig langar einnig að spyrja hv. þm. hvort hann sé sömu skoðunar ef allir Íslendingar byggju í sveitarfélögunum sem næðu inn í miðhálendið, þ.e. 100%, hvort það væri eðlilegt og betra að hans mati og hann mundi þá samt þola að miðhálendinu yrði skipt upp þá milli þeirra sveitarfélaga.