Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 15:20:36 (3498)

1998-02-05 15:20:36# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:20]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er orðið nokkuð sérkennilegt millispil í þessari umræðu, þ.e. að hæstv. félmrh. ber af sér sakir og hér hefst umræða milli þingmanna Framsfl. Ég vildi ekki taka til máls undir þeim dagskrárlið. Ég er hvorki að bera sakir á félmrh. né bera af mér eða öðrum sakir, en mér þykir ástæða til að koma upp til að tala um stjórn fundarins vegna þess að mér finnst málið vera mjög óljóst og það er krafa sem við getum gert í stjórnarandstöðinni að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvernig háttað er stuðningi við stjfrv. sem eru hér til umræðu.

Það hefur verið upplýst í umræðunni af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að fyrirvarar hafi verið við málið og hún tilgreindi nokkra þingmenn sem höfðu gert fyrirvara. Síðan upplýsti hæstv. félmrh. það að þegar málið var til afgreiðslu í nóvember, ef ég hef tekið rétt eftir, hafi þessir fyrirvarar ekki komið fram, þeir hafi gilt við fyrri framlagningu málsins.

Það sem ég óska eftir, herra forseti, til að ég átti mig á þessu því ég þekki náttúrlega ekki hvernig vinnubrögðum er háttað í þingflokki Framsfl. ... (Gripið fram í: Er þetta mál á dagskrá?) Við erum að ræða þetta mál sem tengist þessari umræðu (Gripið fram í: Hvaða mál er á dagskrá?) Ég óska eftir, herra forseti, að það verði upplýst varðandi þetta mál sem kemur mjög sterklega inn í þá umræðu sem hér stendur yfir og hefur verið því nátengt, þ.e. sveitarstjórnarumræðuna, hvaða stuðningur sé í reynd er við það af hálfu Framsfl.