Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:23:13 (3510)

1998-02-05 16:23:13# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:23]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. umhvrh. yrði viðstaddur, a.m.k. þegar kæmi að því að ég flytti mína ræðu því að ég hef ákveðnum spurningum til hans að beina, m.a. spurningum sem hv. þingmenn hafa fyrr í umræðum beint til hæstv. forsrh. sem hann á eðli málsins samkvæmt mjög erfitt með að svara því að þau mál, sem þar var um að ræða, skipulagsmál, falla ekki undir ráðuneyti hans heldur undir ráðuneyti hæstv. umhvrh. sem verður þá að vera til andsvara. Ég spyr virðulegan forseta hvort ekki megi vænta þess að hæstv. umhvrh. geti komið hér. --- Jú, hér er hann og ég þakka honum fyrir það.

Á þeim stutta tíma sem ég hafði til ráðstöfunar fyrr í dag vildi ég rekja nokkuð forsögu þessa máls og enn fremur tengsl þess við önnur frv. sem eru til meðferðar til að rökstyðja þá tillögu mína að öll þessi frumvörp fengju sérmeðferð í sérstakri þingnefnd. Ég gat því ekki, herra forseti, tímans vegna farið í einstök atriði í þessu frv. sem ástæða er til að nefna. Ég vil hefja mál mitt á að gera það alveg ótvírætt að við jafnaðarmenn styðjum allt meginefni þessa frv., teljum það mjög til bóta og að flestu leyti í fyllsta samræmi við þau þingmál sem við höfum verið að flytja í tæplega 30 ár. Athugasemdir mínar má því ekki skoða sem athugasemdir við meginefni málsins heldur aðeins sem athugasemdir við nokkur atriði sem mætti haga með öðrum hætti í þessu frv. ef menn vildu.

Í fyrsta lagi langar mig til að benda á að eins og frá frv. er gengið er eiginlega alger ógerningur að ræða það eitt út af fyrir sig án tengsla við önnur mál. Það kemur fram þegar menn lesa 3. gr. vegna þess að þar er m.a. sagt, með leyfi forseta:

,,Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar.``

Hvað átt er við með þessari setningu geta menn ekki fengið á hreint nema með skírskotun til annaðhvort gildandi sveitarstjórnarlaga eða þeirra breytinga sem hæstv. ríkisstjórn hyggst gera á sveitarstjórnarlögum samfara afgreiðslu þessa frv. Því hlýtur tillaga hæstv. félmrh. um ákvæði til bráðabirgða í frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum að koma inn í þessa umræðu. Vegna þess að sú setning sem ég vitnaði til verður ekki skýrð til fullnustu nema menn hafi hliðsjón af því hvernig menn hyggjast skipa þeim málum í sveitarstjórnarlögum. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. forsrh. að menn geta breytt skilningi málsgreinarinnar eða málsliðarins í 3. gr. með breytingu á sveitarstjórnarlögum einhvern tíma í framtíðinni og breytt því kerfi stjórnsýslu sem menn hyggjast koma sér upp með samvirku kerfi frv. til laga um þjóðlendur og laga um skipan sveitarstjórnarmála. En það breytir ekki því, þó að menn geti breytt lögunum seinna, að menn verða að ræða þetta frv. í samhengi við það skipulag sem menn hugsa sér varðandi brtt. og meðferð Alþingis á frv. til sveitarstjórnarlaga því að af sjálfu leiðir að menn geta ekki rætt frv. til þjóðlendna algerlega eitt út af fyrir sig án þess að taka tillit til þeirrar lagasetningar jafnframt og ekki er eðlilegt að tvær nefndir fjalli um jafnnátengd mál heldur á ein og sama nefndin að sjálfsögðu að gera það. Þá er ég ekki að ræða frv. hæstv. félmrh. í heild heldur aðeins tillögurnar um bráðabirgðaákvæði.

Í öðru lagi eru ákvæði í 3. gr. líka um leyfi, hvernig skuli hátta leyfisútgáfu til rannsókna, leitar og nýtingar á auðlindum í sameign þjóðarinnar og hvernig skuli haga gjaldtöku fyrir þær sömu auðlindir. Þetta snertir beint frv. hæstv. iðnrh. um auðlindir í jörðu og frv. okkar jafnaðarmanna, kvennalistakvenna og hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um nákvæmlega sömu mál, því að þar er lögð til framkvæmd sem er með gjörólíkum hætti frá því sem kveðið er á um í 3. gr. þessa frv. Þar með er því einnig orðið ljóst að ekki er hægt að ræða og afgreiða frv. til laga um þjóðlendur eitt út af fyrir sig án þess að hafa jafnframt hliðsjón af því hvernig menn hyggjast ráðstafa sameiginlegum auðlindum í jörðu og auðlindum fallvatna í öðrum lagafrumvörpum sem eru á ferð í Alþingi, hvort menn hyggjast taka gjald fyrir nýtingu þeirra auðlinda og þá hvernig, því um nákvæmlega þessi mál er fjallað í 3. gr. frv. til laga um þjóðlendur. Auðvitað geta menn ekki afgreitt það með öðru móti í frv. til laga um þjóðlendur en þeim sem menn hyggjast viðhafa í frv. um virkjunarrétt fallvatna og gjald fyrir nýtingu virkjunarréttar sem við þingmenn jafnaðarmanna höfum flutt, í frv. um auðlindir í jörðu og auðlindagjald sem við þingmenn jafnaðarmanna höfum flutt og í frv. hæstv. iðnrh. um auðlindir í jörðu sem einnig fjallar um hvernig nýta skuli auðlindir í sameign þjóðarinnar, hvernig leyfi fyrir nýtingu þeirra skuli háttað og hvernig gjald skuli taka fyrir.

[16:30]

Ef við víkjum að fyrsta atriðinu, þ.e. um samspil frv. við það fyrirkomulag um stjórnsýslu á hálendinu sem bráðabirgðaákvæðið í frv. hæstv. félmrh. gerir ráð fyrir, er stóra spurningin fyrir utan sjálfa stjórnsýsluna þessi: Hvernig hyggjast menn standa að útgáfu svæðaskipulags fyrir þetta landsvæði sem tillögur hafa þegar verið gerðar um? Þetta svæðaskipulag hefur aðeins komið til umræðu fyrr í dag og hefur verið gagnrýnt af ýmsum þingmönnum fyrir ýmsar sakir, m.a. með ábendingu um að þar séu uppi hugmyndir um virkjanakosti sem enginn veit til að uppi hafi verið hjá þeim stofnunum sem fjalla um virkjunarmál á Íslandi og er því hreinn tilbúningur þeirra sem sömdu svæðisskipulagstillöguna. Í öðru lagi sem hefur verið gagnrýnt líka á þeim forsendum að þarna sé verið að breyta án samráðs við virkjunaraðila ýmsum áformum sem hafa þegar verið samþykkt en ekki hrint í framkvæmd. Í þriðja lagi hefur þetta líka verið gagnrýnt fyrir þær sakir að þarna sé nánast fjallað um hömlur og náttúruvernd í öllum efnum nema hvað varðar beit búfjár. Einu náttúrueyðingaráhrifin sem er ekki fjallað um í þessum skipulagsuppdrætti er því beit búfjár og umgengni búfjár um hálendið. Að því virðist ekki vera vikið einu orði en það virðist ekki vera neitt áhyggjuefni þeirra sem hafa fjallað um málið þó að svo sé komið vegna ofbeitar á Íslandi að Ísland sé orðið eitt af stærstu eyðimerkursvæðum jarðar sökum uppblásturs jarðvegs vegna of mikils ágangs búfjár einmitt á þessi fallegu svæði. Auk þess hefur verið gagnrýnt að forsenduna skortir fyrir skipulagstillögum, þ.e. stefnumótun stjórnvalda um nýtingu jarða og orkuauðlinda á svæðinu. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra umhverfismála hvort hann hyggist staðfesta skipulagstillögurnar sem fyrir honum liggja á grundvelli þeirra laga sem gilda í dag, hvort hann treystir sér til þess, eða hvort hann telji nauðsynlegt að fá fram þær breytingar á skipulagsmálum sem bráðabirgðaákvæðið fjallar um áður en hann getur gengið til staðfestingar á tillögunum.

Virðulegi forseti. Ég á eftir að koma að öðru stórmáli sem ég kemst ekki til með að spyrjast fyrir um í þessum knappa umræðutíma og verður þá svo að vera en það varðar heimildir þær til gjaldtöku sem hæstv. forsrh. eru gefnar í 3. gr. (Forseti hringir.) Þar vantar allar reglur um málsmeðferð og þar er verið að heimila hæstv. forsrh. án neinna sérstakra málsmeðferðarreglna að semja um afgjald fyrir t.d. nýtingu á helstu orkuauðlindum landsins án undangengins útboðs og án annarrar lagastoðar en felst í frv. þessu. Ég tel þetta mjög varhugavert, virðulegi forseti, og ég mundi gjarnan vilja heyra skýringar hæstv. forsrh. á þessu.