Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:36:04 (3512)

1998-02-05 16:36:04# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta hæstv. forsrh. Ég hef óskað eftir því við þá umræðu sem fór fram um frv. hæstv. félmrh. að bráðabirgðaákvæðin þar færu í sömu nefnd og þjóðlendufrv. hæstv. forsrh. þannig að sú ósk kom þá þegar fram.

Í öðru lagi um gjaldtökuna að þetta væri svo lítilvægt að það væri allt í lagi að heimila forsrh. að semja um þetta án þess að setja nokkrar málsmeðferðarreglur. Ja, lítilvægt? Þarna er verið að gefa forsrh. heimild án þess að setja nokkrar reglur um það hvernig skuli staðið að því að semja t.d. leyfisgjöld fyrir stærstu risavirkjanir á hálendi Íslands. Er þetta smámál? Er það eitthvert smámál að heimila forsrh. án nokkurrar málsmeðferðarreglu að semja t.d. um virkjanir á vatnasvæðinu norðan Vatnajökuls við einhvern tiltekinn aðila og taka fyrir það gjald? Er nokkurt vit í því að miða við að Íslendingar leigi slíka sameiginlega auðlind sína fyrir lítið sem ekki neitt eins og mátti skilja á hæstv. forsrh.? Það yrði svo lítið sem kæmi í tekjur fyrir slíka leigu að það væri allt í lagi að veita hæstv. forsrh., nú er ég ekki að tala um þann hæstv. forsrh. sem nú situr í stólnum, heldur hæstv. forsrh. um alla framtíð, að veita þeim heimild til að ganga án nokkurrar málsmeðferðarreglu til samninga við hvern sem honum dettur í hug. Hann þarf ekki einu sinni að leita útboða eða tilboða. Hann getur gengið til samninga við hvern sem honum dettur í hug um slíka framkvæmd og um leigugreiðslur til þjóðarinnar þar sem það séu svo litlir peningar sem munu koma inn fyrir leigu til einkaaðila fyrir nýtingu verðmætustu auðlinda Íslands. Ég held að menn verði aðeins að spyrna við fótum og hugsa sig um.