Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:41:51 (3515)

1998-02-05 16:41:51# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:41]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm. um skipulagsmál á miðhálendinu vil ég að það komi skýrt fram að afstaða mín til þess máls er sú að það verði að vera ljóst hver fer með stjórnsýslu á miðhálendinu. Ég beitti mér fyrir því að svæðisskipulagsnefndin fengi aðstoð sérstakrar lögfræðinefndar til að skýra sveitarstjórnarmörk og takast á við nokkur atriði sem voru ágreiningsefni milli sveitarfélaga um þessi efni og um það er í megindráttum samstaða milli aðila. Að vísu er enn þá á því ein undantekning og sýnir hvað brýnt er að á þessu sé tekið. Það er í Þórsmörk þar sem fyrir vikið er ekki vitað hver fer með skipulagsmál og hver gefur út byggingarleyfi og annað í þeim dúr. Ég tel því mjög brýnt að koma skikki á þessi mál og þess vegna er ég líka mjög sammála þeirri tillögu sem kemur fram í frv. hæstv. félmrh., í frv. til sveitarstjórnarlaga, ákvæði til bráðabirgða sem hv. þm. spurði um.

Þá er spurningin hvort hægt er að staðfesta svæðaskipulagið sem hann spurði um áður en afstaða liggur fyrir í þessu efni (SighB: Án þess að afstaða liggi fyrir.) eða án þess að afstaða liggi fyrir, það má kannski orða það þannig. Ég tel að það sé mjög erfitt að staðfesta skipulagið án þess. Ég minni síðan á að svæðisskipulagsnefndinni hafa borist ótal athugasemdir, ég held að það séu tugir ef ekki hundruð athugasemda sem hún er að yfirfara samkvæmt hlutverki hennar. Hún hefur beðið um framlengdan frest til þess að vinna verkefni sitt. Ég hef veitt þann frest til áramóta og verði þetta ákvæði til bráðabirgða í frv. hæstv. félmrh. að lögum er gert ráð fyrir því að þessum málum verði skipað eins og þar segir fyrir 31. des. 1998 þannig að þetta ætti að geta farið saman.