Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:44:02 (3516)

1998-02-05 16:44:02# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir mjög skýrt og greinargott svar. Hann tekur af öll tvímæli um að verði frv. hæstv. félmrh. um bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögunum samþykkt eins og hann hefur lýst því mun hann staðfesta hinar mjög svo gagnrýndu skipulagstillögur fyrir árslok. Verði ákvæði til bráðabirgða hins vegar ekki samþykkt treystir hæstv. ráðherra sér ekki til að staðfesta tillögur skipulagsnefndar, auðvitað með þeim breytingum sem kunna að vera gerðar frá því frv. kom fram. Þetta held ég að þingmenn ættu að hafa sterklega í huga vegna þess að ég veit að margir þingmenn eru mjög efins um að rétt sé að ganga frá skipulagi miðhálendisins á þeim grundvelli sem tillagan gerir ráð fyrir án þess að stjórnvöld hafi markað neina stefnu áður sem hægt er að segja að sé stefna ríkisstjórnar og Alþingis um nýtingu lands og landgæða á hálendi Íslands. Þar með er enn komið fram að það hangir saman afgreiðsla Alþingis á tillögum félmrh. og staðfesting umhvrh. á hinni umdeildu skipulagstillögu.