Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:02:48 (3520)

1998-02-05 17:02:48# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:02]

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga, um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins, en þar er gert ráð fyrir að við bætist þrjár nýjar málsgreinar við 72. gr. stjórnarskrárinnar og er fyrsta málsgreinin svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda, teljast sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi.``

Forsaga þessa máls hefur nokkuð komið til umræðu í þinginu og þá einkum að frumkvæði talsmanna þingflokks jafnaðarmanna. Hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, hélt því fram í framsöguræðu sinni í morgun að Alþfl. hefði fyrstur flokka hreyft þessu máli á Alþingi með frv. sem flutt hefðu verið snemma á áratugnum milli 1970 og 1980. Ég leyfði mér að leiðrétta hv. þm. í morgun. Þó að þetta sé hálfgert aukaatriði þá verður satt að vera satt, og staðreynd að vera staðreynd. Ég vakti athygli á því þá að ég hefði ásamt fleiri þingmönnum Alþb. flutt árið 1966 stjórnarskrárfrv. þar sem svo sagði, með leyfi forseta:

,,Öll núverandi óbyggð, --- það er almenningar, afréttir, aðrar lendur og svæði, sem eigi hafa verið í byggð undanfarin 20 ár, --- og öll hveraorka, vatnsorka og auðæfi í jörðu, sem þar eru, er ævinlega eign íslensku þjóðarinnar. Ákveða skal með lögum beitirétt, veiðirétt og annan hefðbundinn afnotarétt af þessum svæðum, svo og hvernig með eyðijarðir, sem þar eru, skuli fara.``

Ég væri ekki að rifja þetta upp ef ekki vildi svo illa til að hv. talsmenn þingflokks jafnaðarmanna hafa síðan haldið áfram að halda þessari fullyrðingu fram í umræðunni alveg óháð þeirri leiðréttingu sem ég gerði í morgun. Vitna ég þar m.a. í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssonar, sem vitnaði mjög í frv. sem flutt var árið 1976, en 1. flm. þess var Bragi Sigurjónsson, þingmaður Alþfl.

Það er kannski rétt úr því að tilefni er gefið til, að rifja upp þessa sögu ögn nánar, en staðreyndin er sú að nefndur Bragi Sigurjónsson flutti reyndar frv. um þetta mál á þinginu 1975. Það sem vakti athygli við það frv. á sínum tíma var sérstaklega það, að þar var ekki verið að fjalla um óbyggðirnar sérstaklega heldur sagði þar í 2. tölul., með leyfi forseta:

,,Sú grundvallarregla verði mörkuð að landið allt, eins og miðin umhverfis það, sé sameign þjóðarinnar allrar.`` Alþfl. gerði sem sagt ráð fyrir því á þessum tíma að þjóðnýta allt land. Síðan var það tekið sérstaklega fram í sama tölulið að ,,bændum sé tryggður kaup- og söluréttur (eignarréttur) á bújörðum til búrekstrar, ef þeir svo kjósa, fremur en erfðafestu eða lífsábúð.``

Við þingmenn Alþb. vorum þessu mjög ósammála á sínum tíma. Við töldum að þarna færi Alþfl. út í öfgar og fullkomlega óraunhæft og engin skynsemi í því að þjóðnýta allt land. Þess vegna fluttum við frv. þar sem tillögur mínar frá fyrri áratug, sem oft höfðu verið fluttar á árunum milli 1966 og 1970, voru endurunnar og þá mjög í þeim anda sem einmitt þetta frv. sem ég er hér að mæla fyrir segir til um. Þar var nefnilega sérstaklega tekið fram eins og reyndar er gert í frv. sem ég er að mæla fyrir, með leyfi forseta, að ,,með þeim takmörkunum, sem hér greinir, skal við það miða að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.``

Það má segja að tillöguflutningur okkar alþýðubandalagsmanna á árunum 1975 og 1976 og árunum þar á eftir hafi að nokkru leyti verið svar við þeim tillögum Alþfl. sem við töldum að varpaði rýrð á hið góða mál með nokkuð öfgakenndum hætti. Við töldum að það væri fullkomlega óraunhæft að svipta bændur þeim rétti sem þeir hefðu átt í gegnum aldirnar og flytja yrði þetta mál á eðlilegan hátt.

Árið eftir endurskoðaði Alþfl. sitt frv. og hafði þá gjörbreytt því frá því að það var fyrst flutt og flutti nýtt frv. sem var allt öðruvísi orðað en það fyrra og það var frv. sem hv. þm. Gísli S. Einarsson vitnaði til áðan. En ég vil vekja á því athygli að þó að í því frv. væri sagt að bændum sé frjálst ef og meðan þeir svo kjósa að eiga jarðir til eigin búrekstrar, þá var sérstaklega tekið fram að bújörðum skyldu ekki fylgja hlunnindi á borð við veiðirétt í ám eða vötnum sem auðvitað var mjög ólíkt tillöguflutningi okkar alþýðubandalagsmanna að því leyti að við lögðum áherslu á að ekki ætti að svipta bændur neinum þeim réttindum sem þeir hefðu átt í gegnum aldirnar. Ég hygg að eftir þá gagnrýni sem við höfðum uppi á tillögum Alþfl. á sínum tíma hafi Alþfl. enn lagfært stefnu sína hvað þetta varðar og ekki heyrist lengur að að þjóðnýta eigi allan rétt bænda til veiði í ám og vötnum enda fullkomlega óraunhæf tillaga.

Það hefur sem sagt gengið á ýmsu í þessum efnum og tillöguflutningur Alþfl. hefur því miður ekki alltaf verið allt of skynsamlegur og þar hafa ýmsir komið að við að reyna að færa til betri vegar. En hitt stendur eftir að það er síður en svo að Alþfl. hafi haft forustu á þessu sviði eins og talsmenn þingflokks jafnaðarmanna hafa reynt að telja mönnum trú um endurtekið í þessari umræðu heldur hefur sú forusta verið á hendi Alþb.

Svo ég víki aftur að frv. sem ég flyt ásamt sex öðrum þingmönnum Alþb., þá leggjum við áherslu á að taka þurfi af öll tvímæli um eignarrétt á náttúruauðæfum á landi og marka skýra stefnu í því efni. Við höfum talið að eðlilegast væri að gera þetta með stjórnarskrárákvæði á þann veg að eignir, sem enginn hefur sannarlega átt fram að þessu og eru þess eðlis að þær þurfa að nýtast af þjóðarheildinni, verði í stjórnarskrá lýðveldisins lýstar sameign þjóðarinnar allrar. En um leið, eins og ég hef þegar tekið fram, leggjum við áherslu á að staða bænda sé ekki skert í neinu heldur haldi þeir þeim hlunnindum sem hafa fylgt íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. Við höfum gert ráð fyrir að mörkin milli einkaeignar og sameignar þjóðarinnar verði ákveðin með löggjöf þar sem hagsmuna þéttbýlisbúa sé fyllilega gætt og þeim sé tryggður réttur til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu.

Í frv. sem var til umræðu fyrr í dag, þ.e. frv. um þjóðlendur, er hins vegar gert ráð fyrir að þetta verði ekki gert með lagasetningu heldur með nefndarstörfum og dómstörfum. Ég get ekki annað en fagnað því að svo ágæt vinna verði lögð í það mál og mun ekki af veita, að ríkisvaldið hafi forustu um að skera úr í þeim efnum. En ef okkar frv. til stjórnarskipunarlaga yrði að lögum, þá var ráð fyrir því gert að menn yrðu að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og ég viðurkenni að sú aðferð sem lögð er til í frv. ríkisstjórnarinnar er á margan hátt miklu öruggari og æskilegri og ekki nema eðlilegt að fagna þeirri leið.

Við leggjum áherslu á að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni meðfram ströndum landsins verði lýst sameign þjóðarinnar. Ég þarf ekki að orðlengja það að einmitt þessi verðmæti, sem auðvitað er ekkert minnst á í frv. ríkisstjórnarinnar um þjóðlendur, eru mikið bitbein í stjórnmálaumræðunni í dag. Það er ótti meðal almennings um það að útgerðarmenn eignist formlega fiskinn í sjónum. Ég tel hins vegar að það hafi verið mjög til hins betra að í fiskveiðistjórnarlögunum var á sínum tíma ákveðið að rétturinn til veiða og auðæfin í sjónum væru sameign þjóðarinnar, enda er það tilkomið að frumkvæði okkar alþýðubandalagsmanna, og sú lagasetning tryggir vissulega margt í þessum efnum. En vissulega er hitt enn skýrara og betra að þetta sé ákveðið í stjórnarskrá.

[17:15]

Það er líka fleira sem kemur þarna til álita en fiskurinn í sjónum. Það gætu fundist olíulindir í íslenskri lögsögu. Það gætu fundist námur undir sjávarbotni og þá er kannski ekki alveg nógu ljóst hver fer þá með eignarrétt á þessu svæði nema það sé skýrt tekið fram í lögum og þá helst í stjórnarskrá.

Ég ætla ekki að fjölyrða um eignarrétt að afréttum og almenningum vegna þess að við ræddum það svo ítarlega í dag í umræðunum um þjóðlendurnar. Ég legg hins vegar á það áherslu að þó að ákveðið sé að þjóðlendurnar séu sameign þjóðarinnar og það jafnvel stjórnarskrárbundið, þá hindrar það að sjálfsögðu ekki að ríkisvaldið standi fyrir aðgerðum gegn ofbeit og slíkar aðgerðir eiga að geta átt sér stað án þess að til bóta komi.

Ég vil sérstaklega víkja að jarðhitanum sem er, eins og menn vita sem fylgst hafa með þeim frumvörpum sem liggja fyrir til umræðu á þessum degi, aðallega til umfjöllunar í frv. um eignarhald á auðæfum í jörðu. En við erum hér með tillögu um að það verði stjórnarskrárbundið að jarðhitinn neðan við 100 metra dýpi verði lýstur sameign þjóðarinnar. Þetta er hins vegar ekki tillaga sem við alþýðubandalagsmenn komum fyrstir með. Ég hygg að um þetta mál hafi fyrst verið fjallað í fræðibókum af prófessorum við Háskóla Íslands. Ólafur Jóhannesson fjallaði mjög ítarlega um þetta efni í ritgerðum á árinu 1957 og áður hafði prófessor Ólafur Lárusson fjallað mjög um eignarrétt á jarðhita í bók sinni um eignarrétt. Báðir komust þeir að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera eðlilegt að setja réttindum yfir jarðhita einhver takmörk þannig að ekki væri um það að ræða að landeigandi ætti rétt til jarðhita svo djúpt sem hann kysi, heldur var það niðurstaða þeirra að jarðeigandinn hefði fyrst og fremst þau not af landi sínu sem heyrði til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteignum, þ.e. ef um væri að ræða mjög djúpa borun eftir jarðhita þá væri það ekki eitthvað sem gæti flokkast undir venjulega hagnýtingu á fasteignum og þar af leiðandi hlyti slíkt að falla frekar undir almenningseign en undir eign viðkomandi landeiganda. Hitt er óumdeilt og hefur lengi verið, að jarðhiti á yfirborði á einkaeignarlandi sé í einkaeign og um það er ekki deilt.

Ég minni í þessu sambandi á að í kjölfar þessara álitsgerða sem ég vitnaði nú til var flutt frv. á Alþingi um jarðhita og þar var gert ráð fyrir því að eignarréttur ríkisins á jarðhita byrjaði neðan við 100 metra dýpi eða nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu okkar alþýðubandalagsmanna. Þetta var stjfrv. á sínum tíma en varð ekki afgreitt á Alþingi. Í þessu stjfrv. var ítarleg greinargerð um fyrirkomulag þessara mála í öðrum löndum og þar kom fram að í mjög mörgum löndum væri umráðaréttur yfir jarðhita í höndum ríkisins. Var þar sérstaklega tilgreint Nýja-Sjáland sem er mikið jarðhitaland, einnig Ítalía og Mexíkó. Í öllum þessum löndum er mikill jarðhiti eins og menn þekkja og þar eru einmitt fordæmi fyrir því að menn hafa talið að um væri að ræða þess háttar réttindi að þegar komið væri niður fyrir ákveðið dýpi eða upp fyrir ákveðinn hita, þá væri óhjákvæmilegt að ríkið teldist réttur eigandi að þeim verðmætum. Svo ég vitni í greinargerð með því frv. sem flutt var sem stjfrv. árið 1957, þá sagði þar, með leyfi forseta:

,,Þegar tillit er tekið til framangreindra atriða og þess að aðrar þjóðir telja jarðhita djúpt í jörðu undanskilinn eignarrétti landeigenda og háðan umráðarétti ríkisins (Nýja-Sjáland, Ítalía og Mexíkó), virðist eðlilegt að löggjafinn hverfi hér inn á svipaða braut í þessu efni, þ.e. dragi hér alveg ákveðna markalínu á milli einstaklingseignarréttar og umráðaréttar ríkisins.``

Í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 1971--1974 flutti þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar var öðruvísi tekið á málinu. Þar var miðað við háhitasvæðin og gert ráð fyrir því að þau teldust sameign þjóðarinnar. Háhitasvæði voru þar skilgreind sem þeir staðir þar sem finna mætti yfir 200 stiga hita á minna en 1.000 metra dýpi og þar voru þekkt og líkleg háhitasvæði sem uppfylltu þessa skilgreiningu talin upp.

Þetta hef ég sagt hér vegna þess að ég ítreka að hugmyndin um það að takmarka einstaklingseignarrétt á jarðhita við ákveðið dýpi er ekki komin frá okkur alþýðubandalagsmönnum heldur byggir hún á langri umræðu á Íslandi um það efni, m.a. ítarlegum álitsgerðum virtustu fræðimanna á þessu sviði á sínum tíma. Ég tók það fram í umræðunni fyrr í dag að það væri í sjálfu sér ekki neitt skilyrði af hálfu okkar alþýðubandalagsmanna að miðað væri við nákvæmlega þetta dýpi. Við gætum kannski alveg eins hugsað okkur 200 metra dýpi þess vegna ellegar einhverja allt aðra viðmiðun, eins og t.d. að miða við háhitasvæði ... (StG: Hnédýpi.) Ég er hræddur um að það skilji ekki margir fleiri en hv. þm. þessa athugasemd. En ég ítreka að það er hægt að koma að viðmiðun í þessum efnum með ýmsum hætti. Aðalatriðið frá sjónarhóli okkar alþýðubandalagsmanna er að um einhverja takmörkun sé að ræða því að við teljum það fráleitan skilning með öllu að landeigandi geti átt slík réttindi inn að miðpunkti jarðar. (StG: Landeigandi?) Landeigandi. Það getur ekki staðist almenna skynsemi og ég veit að svo skynsamur maður sem hv. 3. þm. Norðurl. v. er, hlýtur að vera mér sammála í því efni (StG: Þó er hann eigandi.) þó hann sé hugsanlega eigandi að einhverjum jarðhita. En hann veit það alveg jafn vel og ég að um leið og farið er að bora á litlu landi og borunin gengur kannski marga kílómetra í jörðu niður, þá eru menn auðvitað farnir að rugla saman reytum við eigendur á stóru svæði. Ein borhola dregur orku frá öðrum jarðhitasvæðum þannig að með einni borholu geta menn verið að hafa veruleg áhrif á eignarrétt manna í talsverðri fjarlægð. Bara þetta eitt sýnir hversu sterk rök hljóta að vera fyrir því að hafa þarna einhver takmörk. (SJS: Svo er hægt að skábora.) Svo er það alveg hárrétt ábending hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að í dag er ekkert því til fyrirstöðu að skábora. Það er sem sagt hægt að bora út á hlið frá einni holu og koma kannski inn í annarra manna land nokkrum kílómetrum fyrir neðan yfirborð þess. (Gripið fram í.) Jafnvel er hugsanlegt að borarnir rekist saman.

Ég vil leggja á það áherslu að í þessu máli sem við alþýðubandalagsmenn höfum svo lengi barist fyrir, er eitt nýmæli nú sem ekki hefur áður verið í frv. okkar, en það er það nýmæli að heimilt sé að ákveða að nýtendur auðlinda í sameign þjóðarinnar greiði hóflegt gjald er standi undir kostnaði við rannsóknir og stuðli að verndun auðlindanna og sjálfbærri nýtingu þeirra samkvæmt nánari ákvörðun í lögum.

Ég legg á það áherslu að í þessari tillögugerð er eitt orð sem skiptir kannski meira máli en flest önnur og það er orðið: Hóflegt. Það er áhersluatriði af okkar hálfu að hér sé haft visst hóf á og ekki gengið svo langt að það íþyngi um of einstökum atvinnuvegum. Ég er ekki ýkjahrifinn af þeirri tillögugerð sem fram hefur komið frá þingflokki jafnaðarmanna, þar sem gert er ráð fyrir því að auðlindagjald verði svo stórtækt að það ryðji burtu tekjuskatti, eins og kemur fram í greinargerð við frv. þeirra jafnaðarmanna sem dreift var í dag. Þeir eru þar að leggja áherslu á bæði auðlindagjald og veiðileyfagjald og þeir ganga svo langt í þessari greinargerð að gera ráð fyrir því að þarna sé um svo stórtækan skatt að ræða að það verði óþarfi að leggja á tekjuskatt. Ég þori að fullyrða það að ef af þessu yrði þá mundi heldur betur heyrast hljóð úr horni víða í hinum dreifðu byggðum landsins, ég tala nú ekki um samtök sjómanna sem eiga í verkfalli þessa dagana og eru mjög hörð á móti skattheimtu af því tagi.

Ég vek á því athygli líka að hefðbundnir atvinnuvegir landsmanna eiga undir högg að sækja. Fiskvinnslan er víða rekin með tapi og ég get t.d. nefnt það sem dæmi að í mínu kjördæmi, á Norðurl. v., fer ekki fram nein landvinnsla á bolfiski vegna þess að fiskvinnslan stendur það tæpt víðast hvar að það hefur orðið að leggja hana niður. (KHG: Það er eitthvað lítið um alþýðuflokksmenn í fiski.) Þá er ég að sjálfsögðu að tala um hina klassísku frystingu á bolfiski. Hún er beinlínis horfin í okkar kjördæmi og það stafar af því að sjávarútvegurinn á í mörgum greinum undir högg að sækja. Þess vegna er alveg ljóst að ef farið væri að leggja einhver tröllsleg gjöld á sjávarútveginn í líkingu við það að hægt sé síðan að létta tekjuskattinum af, þá mundi sjávarútveginum og fiskvinnslunni og afkomu sjómanna og afkomu útgerðarmenna vera teflt í mikla tvísýnu. Ég get ekki tekið undir slíkar tillögur. Og þegar ég flyt hér ásamt þingmönnum Alþb. tillögu um auðlindagjald, þá hlýt ég að taka þetta fram vegna þess að ég vil ekki láta setja mína tillögu og okkar tillögu undir sama hatt og tillögur sem ganga svo langt út í bláinn, vil ég segja, eða út í öfgar.

Ég tel að þetta auðlindagjald verði að vera hóflegt og við höfum reynt að skilgreina hvað við eigum við með því með því að benda á í tillögunni sjálfri að gjaldið gæti staðið undir kostnaði við rannsóknir og stuðlað að verndun auðlindanna og sjálfbærri nýtingu þeirra samkvæmt nánari ákvörðun í lögum. Við göngum út frá því sem meginreglu að gjöldin yrðu ekki hærri en svo að þau yrðu fyrst og fremst nýtt til þess að létta kostnaði af ríkinu vegna rannsókna sem það þarf að standa undir í þágu viðkomandi atvinnuvegs og til að stuðla að sjálfbærri nýtingu viðkomandi auðlinda. Þetta er ekki ósvipuð hugsun og kemur fram í frv. um þjóðlendur þar sem gert er ráð fyrir því að auðlindagjaldið sem lagt yrði á vegna óbyggðanna, yrði notað til þess að koma málum í gott lag í þessum margnefndu þjóðlendum.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vakti athygli á því áðan að óbyggðirnar hefðu verið einskis manns eign samkvæmt þeim dómum sem fallið hefðu, reyndar almenningar, almenningseign en ekki formleg ríkiseign. Þetta mun vera lögfræðilega rétt og hann vakti athygli á því að ef um væri að ræða að breyta þessum eignum í ríkiseign, þá væri verið að opna fyrir það að einkavæða þjóðlendurnar með því að breyta þeim í hlutafélög og síðan kannski að selja þær. Ég held að þessi ábending hv. þm. eigi fullan rétt á sér. Þarna er ákveðin hætta á ferðum. Það þarf þess vegna að tryggja að þetta gerist ekki og það verður best gert með því að setja ákvæði þess efnis í stjórnarskrá og það er einmitt tillaga okkar alþýðubandalagsmanna.

Fram hefur komið sú hugmynd að tillaga sú sem hér er til umræðu fari til sérnefndar eins og önnur þau frumvörp sem eru til umræðu í dag. Ég tek ekki afstöðu til þessarar hugmyndar að svo stöddu. Mér finnst þetta góð hugmynd, jákvæð hugmynd, og mun styðja hana, en geri þess vegna ekki tillögu að svo stöddu um nefnd.