Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:39:43 (3524)

1998-02-05 17:39:43# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:39]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Herra forseti. Við alþýðubandalagsmenn erum eindregið þeirrar skoðunar að auðlindagjöld eigi rétt á sér. Ég hef mælt mjög fyrir því bæði í mínu kjördæmi og í mínum flokki að svo verði gert, slík gjöld verði lögð á, auðlindagjöld. Ég er hins vegar alveg klár á því að ef gengið er mjög langt í þessum efnum, ef gengið er svo langt að verið er að leggja mjög háar upphæðir á atvinnuvegi landsmanna þá mun því ekki verða unað og þá er verið að kasta rýrð á þessa hugmynd. (Gripið fram í: Við erum ekki að tala um það.) Ég tel að t.d. athugasemdir, eins og þær sem komu fram í greinargerð þingflokks jafnaðarmanna, sem ég var að vitna í áðan, séu til þess fallnar að fá t.d. landsbyggðarfólk, svo ég tali nú ekki um sjómenn eða fiskvinnslufólk, mjög andsnúið þessu hugtaki eða þeirri hugmynd almennt. Það verður að ganga fram af ákveðinni hófsemi í þessum efnum. Og ég er eins viss um það að landsbyggðarfólk getur vel stutt okkur í því og telur það sanngjarnt og réttlátt að leggja á auðlindagjöld en um leið og farið er að tala um málið í þeim dúr, sem þeir jafnaðarmenn hafa gert í þinginu á undanförnum vikum og mánuðum, þá snúast menn á móti og þá verður þetta æpt niður og það er það sem ég er að vara við. Ég tel að tillöguflutningur þeirra jafnaðarmanna gangi út í öfgar svipað og gerðist á sínum tíma þegar þeir lögðu til að allar jarðir á landinu yrðu þjóðnýttar. Það var öfgakenndur tillöguflutningur og þeir drógu það til baka sem betur fer.