Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:46:20 (3527)

1998-02-05 17:46:20# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka undrun mína á því hvernig einstakir þingmenn Alþb. hafa komið fram í umræðum í dag. Þeir eru búnir að skipta um skotspón. Það er ekki lengur ríkisstjórnin heldur Alþfl. sem er þeirra skotspónn. Ég á ekki aðra ósk heitari en þá að það fjölmarga fólk sem styður þá og þeirra flokk hafi heyrt þennan málflutning. Ég ætla ekki að taka þátt í honum. Ég var búinn að kveðja mér hljóðs næst á eftir framsögumanni en ég ætla að biðja forseta að strika mig út af mælendaskrá því ég ætla ekki að taka þátt í þessu hanaati sem þeir eru að hefja hér, hv. þingmenn tveir, gegn Alþfl. af einhverjum óútskýrðum ástæðum.

Ég ætla aðeins að segja þetta. Það er engin tilviljun að formaður Alþb. er ekki meðflm. að þessu frv. Og eins og fjallað er um auðlindagjald í þessu frv., það er ekki í samræmi við yfirlýsingar sem formaður Alþb. hefur látið frá sér fara um það að þjóðin eigi að hafa sanngjarna hlutdeild af arði vegna nýtingar auðlinda í hennar þágu.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. Ég segi bara við þingmenn Alþb.: Gætið að hvað þið eruð að gera, góðir menn. (GÁ: Dagsverkinu er lokið.)