Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 18:29:27 (3532)

1998-02-05 18:29:27# 122. lþ. 60.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður svigrúm til að ræða þetta mál ítarlega síðar en gert er ráð fyrir að fresta umræðum á eftir. Ég vil þó nota tækifærið hér og víkja að einum þætti þessa máls sem er grundvallaratriði og þar sem ágreiningur er uppi við hæstv. iðnrh., m.a. af þeim sem hér talar, samanber frv. sem flutt hefur verið um jarðhitaréttindi og liggur fyrir hv. iðnn.

Þetta frv. sem hér er mælt fyrir gerir ráð fyrir því að landi í einkaeign eða eignarlandi, eins og segir í 3. gr., fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, og þar á meðal er jarðhitinn. Ég vil vísa til þess að á árum áður var um það fjallað af mönnum sem voru taldir standa mjög framarlega sem fræðimenn í lögfræði og stjórnskipunarrétti. Þar nefni ég sérstaklega Ólaf Jóhannesson, fyrrv. forsrh. og prófessor í lögum, og Bjarna Benediktsson sem létu frá sér fara greinargerðir sem tengjast þessu máli, og í þeim greinargerðum, frá 1945 að því er Bjarna Benediktsson varðar, og frá 1956 að því er prófessor Ólaf Jóhannesson varðar, kom fram að hægt væri að setja nýtingu jarðhita, þótt á eignarlandi væri, almenn takmörk án þess að það varðaði bótarétt eða rækist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þau hin sömu og eru í gildi í dag. Þetta liggur skjalfest fyrir. (Forseti hringir.) Þetta er vissulega matsatriði og matið fellur á annan veg samkvæmt þessu frv. Ég bið um skýringar.