Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 18:33:02 (3534)

1998-02-05 18:33:02# 122. lþ. 60.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:33]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verið að vísa til þess að það sé svo langt um liðið síðan þetta mat umræddra hv. lögspekinga og stjórnmálamanna hafi komið fram og legið fyrir, og miklar breytingar hafi orðið. Stjórnarskráin er óbreytt. Þótt tæknin hafi breyst, tel ég að í engum þeim veigamiklu greinum er þetta varðar hnekki það þeirra áliti. Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að prófessor Ólafur Jóhannesson var forsrh. 1978 í ríkisstjórn sem fékk það veganesti að setja löggjöf um djúphita, eins og það var orðað, þ.e. jarðhita í iðrum jarðar. Það mál var undirbúið --- hið sama mál og ég hef leyft mér að flytja sem þingmannafrv. --- fyrst sem stjfrv. þeirrar ríkisstjórnar sem prófessor Ólafur Jóhannesson sat í, þ.e. ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens. Þetta var lagt fram sem stjfrv. í ársbyrjun 1983 með heimild þeirrar ríkisstjórnar þannig að ekki var ágreiningur við viðkomandi þingmann og þá ráðherra utanríkismála um þetta efni. Ég tel að í rauninni hafi engin gild rök komið fram um þetta geysilega þýðingarmikla atriði. Það er því spurning meira um pólitískan vilja, hvort menn vilji setja slík almenn takmörk sem víða hafa verið sett í löndum og m.a. í nágrannalöndum okkar Noregi og Danmörku, varðandi jarðgrunninn að því er varðar nýtingu olíu. Réttarþróunin í nágrannalöndunum hefur ekki gengið gegn þessum sjónarmiðum. Þetta er spurning um pólitískan vilja og spurning um að láta reyna á eðlilega réttarþróun að því er varðar sameiginlegar auðlindir landsmanna.