Afbrigði um dagskrármál

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:16:39 (3545)

1998-02-09 18:16:39# 122. lþ. 62.92 fundur 208#B of skammt liðið frá útbýtingu# (afbrigði við dagskrá), ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Eina ferðina enn sýnir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sitt rétta andlit, að þessu sinni gagnvart sjómönnum. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin vilji banna verkfall sjómanna með lögum, það er ekki nóg með að ríkisstjórnin sé staðráðin að þjóna útvegsmönnum hvað sem það kostar, það er ekki nóg með að hún leggi fram lagafrumvarp sem reisir vegatálma til að torvelda sjómönnum réttinda- og kjarabaráttu. Það er ekki nóg með allt þetta heldur fer ríkisstjórnin einnig þess á leit við Alþingi að það greiði fyrir valdníðslunni með sérstakri flýtimeðferð í Alþingi. Ég segi nei við ríkisstjórn sem beitir launafólk valdi. Ég segi nei við ríkisstjórn og fylgismenn hennar á hv. Alþingi sem misbeita valdi. Ég segi nei við þessari tillögu.