Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:31:40 (3557)

1998-02-09 18:31:40# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:31]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við lifum í þingræðislandi. Í slíku landi sækir löggjafarsamkundan vald sitt til fólksins en ekki til forsrn. Forsenda fyrir því að löggjafarsamkundan geti afgreitt lög rétt og satt er sú að þeir sem hafa hagsmuna að gæta, fólkið í landinu sem verið er að fjalla um í þessum lagasetningum og samtök þeirra, fái tækifæri til að skoða mál og tjá sig um þau, ekki síst þegar verið er að svipta þessi samtök félagslegum lögvernduðum réttindum til að semja um kaup og kjör.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara efnislega í það frv. sem hefur verið lagt fram. Við munum gera það síðar. En það er lýðræðisleg krafa fólksins í landinu og samtaka, sem slíkri lagasetningu er beint gegn, að þeim sé sýnd sú virðing að þau fái möguleika til að fjalla um tillögugerð hæstv. ríkisstjórnar áður en málið er tekið til umræðu og síðan afgreiðslu á Alþingi. Það er það sem á skortir. Sjómönnum var lofað, virðulegi forseti, í morgun að frá málinu yrði ekki gengið öðruvísi en að þeir yrðu a.m.k. látnir vita af því. Það var hins vegar ekki gert og það sýnir að Alþingi ber sú skylda að tryggja að hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu og fólkið í landinu geti fengið að fjalla um mál áður en umræða hefst á Alþingi. Það er ekkert óeðlilegt, það er þinglegt, virðulegi forseti, að teknir séu tveir sólarhringar í slíka skoðun á málum.