Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:39:33 (3561)

1998-02-09 18:39:33# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til að taka þátt í umræðunni þó undarleg sé. Það er hárrétt að oft á vetri greiðum við atkvæði með afbrigðum um að taka frumvörp ríkisstjórnarinnar á dagskrá vegna þess að þau eru seint fram komin og það liggur á að mæla fyrir þeim, koma þeim til nefndar, vinna með þau þar og gera þau að lögum á skömmum tíma. Við höfum oft gagnrýnt að okkur skuli boðið upp á þetta. Samt höfum við alltaf greitt atkvæði með slíkum afbrigðum.

En hvað gerðist í dag? Eftir hádegi í dag eru okkur þingflokksformönnum kynnt áform ríkisstjórnarinnar um að setja þau lög sem átti að taka á dagskrá með afbrigðum. Hlupum við til í offorsi og upphlaupi og sögðum nei, takk? Aldeilis ekki. Við í stjórnarandstöðunni höfum átt saman efnislega fundi í þingflokkum okkar í dag og kallað á fund okkar fulltrúa sjómannasamtakanna sem eiga hlut að málum. Eftir ítarlega umfjöllun og niðurstöðu okkar förum við á fund forseta og hver eru skilaboð okkar? Hver eru skilaboð okkar, virðulegi forseti? Eingöngu þessi: Það er niðurstaða stjórnarandstöðunnar að hún fellst ekki á að sitja hjá við afbrigði og hleypa málinu þar með á dagskrá fundar í dag.

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni ætla ég að segja að það var ekki spurt: Hvað með morgundaginn? Það var bara sagt: Úr því að málið er ekki tekið á dagskrá í dag eru það tveir dagar. Að sjálfsögðu ... (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, nú óska ég eftir að það verði hljóð í salnum.

(Forseti (ÓE): Hljóð í salnum.)

Allt í lagi, forseti. Ég er alveg róleg að standa hér til að ljúka máli mínu. Að sjálfsögðu er eðlileg málsmeðferð á almennu frv. að leggja það fram og taka það til umræðu að tveim dögum liðnum. Þetta vildi ég sagt hafa að gefnu tilefni, virðulegi forseti.