Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:49:40 (3567)

1998-02-09 18:49:40# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mig langaði til að fagna þessari umræðu alveg sérstaklega. Hér áðan gerði ég grein fyrir því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar væri núna að sýna sitt rétta andlit, valdhrokann og yfirganginn, að þessu sinni gagnvart sjómönnum. Nú hefur ríkisstjórnin líka sýnt afstöðu sína, yfirganginn og valdhrokann gagnvart Alþingi.

Það er rangt að hér sé verið að reyna að koma í veg fyrir þinglega meðferð. Menn eru hins vegar að koma í veg fyrir að sjómenn verði beittir órétti. Það er verið að tala um lög sem banna löglega boðað verkfall sjómanna. Þetta er mjög alvarlegur hlutur.

Ef við gætum treyst á dómgreind meiri hluta þingmanna sem við tryðum að mundu hlusta á rök í málinu, með og á móti --- þau rök sem sjómenn hafa fram að færa og sem útgerðarmenn hafa fram að færa --- þá þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af framgangi málsins. En við vitum vel hvað þingleg meðferð Davíðs Oddssonar þýðir. Hún þýðir að Alþingi gleypi hrátt frv. sem því er skipað að samþykkja og það er gegn þessum vinnubrögðum sem Alþingi er að rísa og ég fagna því.