Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 13:51:14 (3575)

1998-02-10 13:51:14# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[13:51]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil félmrh. vel. Ef ég tæki að mér embætti félmrh. kysi ég að jafnréttismálin væru vistuð þar, þetta eru áhugaverð og afar mikilvæg pólitísk mál. Hins vegar hefur komið fram, m.a. í skriflegum fyrirspurnum sem þingmenn hafa borið fram og fengið svör við, að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar félmrn. til annarra ráðuneyta, bæði hvað varðar skipan kvenna í nefndir og ráð og fleira sem hefur verið borið upp, er alveg ljóst að það virðist ekki duga þó góður ásetningur félmrh. á hverjum tíma sé sá að hafa áhrif á ráðuneytin. Ég tek það sérstaklega fram af því að ég þekki mjög vel til forustu Jóhönnu Sigurðardóttur í þessum málum í félmrn. hve ítarlega var gengið eftir því við önnur ráðuneyti að tekið væri á í þessum málaflokki. Ég harma það að líta yfir farinn veg heilum áratug síðar að sjá hve mjög við erum í sömu sporum og við höfum verið á liðnum árum.