Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:57:28 (3592)

1998-02-10 14:57:28# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég muni það alveg nákvæmlega rétt að í því riti sem gefið var út og grundvallaðist á könnuninni sem hv. þm. nefndi og ég reyndar vék að í ræðu minni áðan, var kannski ekki mjög mikið um það að niðurstöðurnar væru kyngreindar. Hins vegar eru þau gögn auðvitað til staðar sem gefa möguleika á þeirri úrvinnslu og mér er kunnugt um það, af því að ég sit í stjórn Byggðastofnunar, að frekari úrvinnsla á ýmsum þáttum sem ástæða hefur þótt að skoða sérstaklega hefur farið fram. Ég tek því undir það með hv. þm. að ég held að nauðsynlegt sé að þessi mál séu skoðuð einmitt í þessu ljósi vegna þess að það kemur svo glögglega fram í könnuninni að sú ástæða sem vegur þyngst fyrir því að fólk flytur burtu úr híbýlum sínum á landsbyggðinni er atvinnuástandið, skortur á fjölbreytileika.

Ég held að við sjáum það einfaldlega í hendi okkar að sú þróun sem hefur orðið á síðustu árum og áratugum, guði sé lof, að konur ekki síður en karlar sækja sér aukna menntun, hefur gert það að verkum að möguleikar þeirra til þess að starfa þar sem vinnumarkaðurinn er þröngur og þar sem fábreytni atvinnulífsins er mikil verða fyrir vikið mun minni. Mjög mörg dæmi eru þekkt um það að fólk sem hefur kannski haft hug á því að flytja út á land eða halda áfram að búa úti á landi hefur ekki átt möguleika á því vegna þess að ekki hefur verið til starf nema fyrir annan aðilann. Þjóðfélagið er að breytast í þá áttina að bæði er eftirspurnin meiri eftir óhefðbundnari störfum en áður var og þessi fábreytni atvinnulífsins gerir það að verkum að mjög margar konar sjá sig knúnar til þess að hverfa burtu af landsbyggðinni.