Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:19:56 (3597)

1998-02-10 15:19:56# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:19]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér að málið sem hér er verið að ræða er mjög mikilvægt, þáltill. um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Áður en ég vík að einstökum þáttum sem ég tel ástæðu til að gera að umtalsefni hér vil ég aðeins staldra við það sem kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrr í dag og velta þeirri spurningu líka inn í umræðuna hvort jafnréttismálin séu rétt staðsett vegna þess að eingöngu eitt fagráðuneyti ber þar ábyrgð.

Þegar við sjáum þessa framkvæmdaáætlun er ljóst að hún tekur til málefna allra ráðuneyta og þess vegna er rétt að við skoðum með opnum huga hvort þessum málum sé t.d. betur borgið hjá forsrn.

Mig langar til, með leyfi forseta, að vitna aðeins í þáltill. Þar segir orðrétt:

,,Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar tímabilið 1998 til loka árs 2001 um aðgerðir til að koma á jafnrétti kvenna og karla er lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna er mannréttindamál.``

Undir þetta get ég tekið af heilum huga og auðvitað er þetta í samræmi við það sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til í alþjóðlegum sáttmálum. Þar er staðfest að jafnréttismál eru mannréttindamál og ber að fara með sem slík.

Af mörgu er að taka í þessari áætlun, herra forseti. Ég vil fá að staldra við örfá þeirra atriða og byrja á því að ræða um forsjár- og umgengnismál. Það er mjög mikilvægt að kannað verði betur hvernig hægt sé að koma forsjár- og umgengnismálum í betri farveg með þarfir barna í huga. Auðvitað verður að líta á þessi mál fyrst og fremst sem réttindamál barna þó vissulega snerti það réttindi feðra og mæðra um leið. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd til að kanna stöðu forsjár- og umgengnismála. Nefndinni hefur m.a. verið falið að kanna reynslu þá er fengist hefur af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar ...``

Ég vil í þessu sambandi minna á að vísindamenn eru þegar farnir af stað með slíka rannsókn hér á landi. Það eru þær Sigrún Júlíusdóttir og Nanna Sigurðardóttir. Ég tel mikilvægt að vinna þeirra verði lögð til grundvallar þessari könnun sem dómsmrh. hyggst beita sér fyrir, en minni á um leið að mikilvæg reynsla hefur fengist í þessum málum í nágrannalöndum okkar og e.t.v. gætum við notað þá reynslu í æ ríkari mæli en við gerum og flýtt þar með fyrir úrbótum í þessum málum.

Í framkvæmdaáætluninni er talað um ýmsa hópa kvenna og er það vel. Ég tel að það endurspegli þá breyttu þjóðfélagsmynd sem við búum við á Íslandi í dag. Það er talað um nýja stétt vinnukvenna. Ég veit ekki hvort allar eru vinnukonur en a.m.k. tek ég undir að mjög mikilvægt er að huga að stöðu aðfluttra kvenna. Talað er um konur sem flóttamenn og enn fremur er talað um könnun á meðferðarúrræðum fyrir fíkniefnaneytendur og að skrifstofu jafnréttismála verði falið að kanna hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur henti jafnt konum sem körlum. Undir þetta tek ég af heilum huga og tel þetta mjög mikilvægt því að þarna held ég einmitt að töluverð brotalöm sé á.

Ég sakna þess hins vegar í þessari upptalningu um konur, sem eru einhverra hluta vegna í erfiðri stöðu, að ekki skuli vera minnst einu orði á konur með fötlun. Vitað er að þær búa við tvöfalda mismunun. Það er annars vegar sú mismunun sem hlýst af fötlun þeirra og hins vegar sú sem hlýst af kynferði þeirra. Ég vil skora á hæstv. félmrh. að beita sér fyrir því að inn í þennan þátt verði líka fellt ákvæði um að það beri að kanna þjóðfélagsstöðu þessara kvenna og koma með tillögur til úrbóta í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Hér er fjallað um mörg atriði sem ekki vinnst tími til að ræða á þessum stutta ræðutíma. Mig langar þó til þess að staldra við eitt þeirra atriða sem lýtur að þætti fjmrn. og varðar feðraorlof. Það er ljóst að einn þeirra þátta sem hefur verið talinn jákvæður fyrir frekari þróun í jafnréttismálum er réttur feðra til að taka orlof og fá greiðslu í fæðingarorlofi. Nýverið ákvað fjmrh. að feður sem starfa hjá ríkinu skuli eiga sjálfstæðan rétt til launaðs fæðingarorlofs í tvær vikur. Það er gott framtak og vonandi fylgja fleiri atvinnuveitendur í kjölfarið.

Eins og allir vita er meginreglan sú í dag að á Íslandi er fæðingarorlof í sex mánuði. Það getur orðið lengra, t.d. ef um fleirburafæðingu er að ræða. Einn mánuður af þessu orlofi er bundinn við töku móður. Síðan geta foreldrar skipt með sér orlofinu eftir því sem þeim hentar. Þessi réttur, sem er afleiðing af rétti móður, nær ekki eingöngu til réttar til orlofs heldur hafa stjórnvöld túlkað það svo að hann taki einnig til greiðslna. Þannig getur faðir sem tekur fæðingarorlof ekki fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafi móðirin ekki fengið slíkar greiðslur þaðan. Þær mæður sem starfa hjá ríki fá fæðingarorlof greitt frá atvinnuveitanda sínum en ekki Tryggingastofnun. Ríkið hefur því hafnað að greiða feðrum í sinni þjónustu laun taki þeir hluta af þessu orlofi og ef mæður eru einnig ríkisstarfsmenn eiga þeir hvergi rétt á greiðslu.

Virðulegi forseti. Kærunefnd Jafnréttisráðs hefur í þrígang fjallað um þetta mál og vil ég vitna í álit nefndarinnar frá árinu 1993 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Með framkvæmd almannatryggingalaganna stendur stór hluti feðra ... án nokkurs réttar til greiðslna, taki þeir fæðingarorlof og eru beittir misrétti sem engin efnisleg rök virðast fyrir`` og sem virðist ekki hafa verið ætlun löggjafans.``

Kærunefnd Jafnréttisráðs telur með öðrum orðum að synjun fjmrn. á greiðslum til feðra í fæðingarorlofi vera brot á jafnréttislögunum. Kærunefndin lætur nú reyna á þetta mál fyrir dómstólum og það er vert að minna á að sambærilegt mál er nú til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum en ég ítreka að ég teldi það vera æskilegt að fleiri ráðuneyti og jafnvel forsrn. kæmu að þessari umræðu og því er ekki að leyna að það er söknuður að því að hvorki heilbrrh. né fjmrh. séu viðstödd þessa umræðu þar sem þetta snýr svo mjög að ráðuneytum þeirra.