Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:28:23 (3598)

1998-02-10 15:28:23# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:28]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá tilraun sem hér liggur frammi til framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum til fjögurra ára. Einhvern veginn finnst mér ég hafa séð svona gögn áður og ég verð að segja það alveg hreinskilnislega að ég er ósköp hrædd um að nokkur bið verði á að slík áætlun, þó hún yrði framkvæmd, breytti í nokkru eða að nokkru verulegu leyti því samfélagi sem við lifum í. Og ég vona að það verði ekki tekið illa upp þó ég segi að ég efast enn þá meira um að hún breyti miklu til góðs.

Það er nefnilega skoðun mín, hæstv. forseti, að jafnréttisbaráttan sé á villigötum og sé búin að vera það lengi. Ég held að hún beri svolítinn keim af því að karlmenn sem að henni koma haldi að okkur langi óskaplega mikið til að vera alveg eins og þeir. Ég held að þetta sé bara rangt. Okkur langar ekkert til þess. Það sem við viljum er að fá að lifa í friði og sátt á okkar forsendum í samfélagi manna. Og því fyrr sem okkar góðu meðbræður skilja þetta því líklegri eru þeir held ég til þess að gera eitthvað af viti í þessum málum.

Við höfum öll a.m.k. tvö hlutverk í þessu lífi. Annað er að vinna samfélaginu allt það gagn sem við megum og hitt er að viðhalda því og það hlutverk er ekki það ómerkasta. Það er hlutverk okkar flestra að ala upp nýjar kynslóðir til að taka við því samfélagi sem við höfum byggt upp og það er þessi þáttur sem hefur verið með öllu lítilsvirtur. Hann er nefnilega nákvæmlega sá mikilvægasti vegna þess að ekki þarf að byggja upp samfélag ef við höfum ekkert fólk til að taka við því. Ég er ein af þeim sem hef umtalsverðar áhyggjur af framtíð þjóðarinnar vegna þess að ég held að við höfum vanrækt þá kynslóð sem er að taka við.

[15:30]

Við verðum að horfast í augu við þá ábyrgð sem við berum á börnum okkar. Það er okkar hlutverk, ekki skólakerfisins eingöngu, ekki leikskólakerfisins né menntakerfisins í heild, að ala upp vel skrifandi, vel talandi og vel hugsandi kynslóð. Foreldrarnir eiga að bera ábyrgð á því. Til þess að þeir geti gert það þurfa þeir að hafa tíma til þess. Íslenskir foreldrar hafa ekki þann tíma.

Ég er ekki alveg viss um að það sé æðsti vilji allra kvenna að taka þátt í stjórnmálum, sitja í nefndum og ráðum eða stjórna verksmiðjum landsins, en þær hafa ekkert val. Það er ekki boðið upp á að annað foreldri, t.d. konan --- ég er ekkert feimin við að stinga upp á því --- sé heima hjá börnunum á meðan þau eru að vaxa úr grasi. Ég held að það sé engin nauð. Ég tel að æðimargar konur viti fátt yndislegra en að vera með börnum sínum á meðan þau eru lítil og þurfa umhyggju. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég átti þess kost að vera heima í fimm ár með litlu börnin mín og ég held að það sé einhver besti tími sem ég hef lifað. Ég er ekki í nokkrum vafa um að börnin búa að þessu enn þann dag í dag.

Nú er ég ekki að segja að þetta eigi allir að gera því auðvitað er til það fólk sem hefur ekkert gaman af að vera með lítil börn. Svoleiðis fólk ætti eiginlega ekkert að eiga börn en það er önnur saga. En þá eiga að vera til aðrir kostir.

Það sem mér finnst vanta í þessa framkvæmdaáætlun eru forsendurnar til að framkvæma hana. Fólk hefur of lág laun, hæstv. forseti, það býr í of erfiðu og dýru húsnæði. Það býr við óréttlátt skattkerfi. Það hefur oft og tíðum lélega leikskólaþjónustu, þó að Reykjavík sé þar svo sannarlega undantekning. Skólarnir taka vissulega í auknum mæli að sér uppeldi barna en ég er ekki viss um að það sé æskilegt. Það er ekkert jafnrétti í því fólgið fyrir lítil börn að vera innan um tuttugu, þrjátíu æpandi börn, jafnvel í átta tíma á dag. Það er erfitt og börn hafa líka tilfinningar. Þetta er ekkert valfrelsi, a.m.k. ekki fyrir börnin.

Við sem viljum búa í frjálsu þjóðfélagi eigum að geta boðið upp á að hver hagi lífi sínu eins og hann helst vill. Auk þess lifum við í mörgum hlutverkum eins og frægt er orðið af kvikmynd Ingmars Bergmans um Fanny og Alexander. Þar var svo skemmtilega fjallað um þau hlutverk sem við höfum í lífinu og við m.a. skiptum um nöfn. Frá því að heita mamma heitum við amma. Þetta er yndislegt og hvert tímabil krefst sinna aðstæðna.

En þetta ágæta gagn er fyrst og fremst skrifræðislegt. Ef ég á að vera alveg heiðarleg er mér nokkuð sama hvort það er nokkrum konum færra eða fleira í ráðuneytum landsins ef þau eru vel mönnuð að öðru leyti. Ég vil frekar að þar séu starfandi hamingjusamir einstaklingar sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnunum sínum heima við. Ég held að við verðum hugsa þessi mál upp á nýtt.

Ég ætla ekki að fella neina sleggjudóma um kvennabaráttuna eða, ef menn vilja, jafnréttisbaráttuna sem hófst af fullum krafti upp úr 1960. Ef ég væri spurð um það hvort ég teldi hana hafa verið til góðs þá mundi ég gerast afar framsóknarleg og segja: bæði og. Ég er ekki viss. Ég held að margt hafi farið úrskeiðis en annað hafi verið til góðs. Auðvitað eru engin mannanna verk fullkomin.

Vinnutími hér á landi er allt of langur og það er ekki bæði hægt að ala upp börn og vinna í átta eða tíu tíma á dag. Það er ekki hægt. Þess vegna hljóma þessi neyðaróp nú um þjóðfélagið frá svokölluðum ofurkonum, því enn er byrðin að meira leyti á konunum þegar að fjölskyldunni kemur. Auðvitað erum við engar ofurkonur. Við viljum bara fá að vera í friði, ala upp börnin okkar, stunda þau störf sem við viljum stunda og getum stundað en við eigum að hafa frelsið til þess að velja. Þannig framkvæmdaáætlun langar mig að sjá næst.