Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:53:49 (3601)

1998-02-10 15:53:49# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:53]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ekki að spyrja að því þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kemur inn á þing að hann flytur athyglisverðar ræður og kemur með merkilegar hugmyndir inn í umræðuna. Ég vil taka undir margt af því sem hann sagði, ekki síst það síðasta um sókn kvenna í efnahagslífinu. Þótt konur séu að verða þar heldur meira áberandi og sæki fram í atvinnurekstri hefur það þó ekki verið í neinum þeim mæli sem við höfum séð í öðrum löndum, hvort sem litið er til Norðurlandanna eða Bandaríkjanna. Það var einmitt vikið að því í þáltill. sem hér er til umræðu að ýmsar aðgerðir sem beitt hefur verið, t.d. í Bandaríkjunum, hafa gefist vel.

Mér finnst athyglisvert það sem hann sagði um Nýsköpunarsjóðinn og við þurfum nú að kanna það mál aðeins. Þótt konur stofni fyrirtæki og takist að ná í 10 millj. er ekki þar með sagt að Nýsköpunarsjóðurinn sendi þeim einhvern karlmann. Þeim gæti til hugar komið að finna konu til þess að veita stjórninni forstöðu. En þarna þarf að vera vakandi og vekja athygli á þessu sjónarmiði.

Býsna margt hefur komið fram í umræðunni í dag, hæstv. forseti. Hér hefur verið rætt um ofurkonuna og það mikla álag sem er á konum og í framhaldi af því var því haldið fram að minni áhugi væri en verið hefur á kvenfrelsisumræðu eða jafnréttisumræðu. Ég vil ekki fella neinn dóm um það. Mér hefur sýnst að þessi umræða væri býsna vakandi. Hins vegar vil ég segja að mér finnst við ekki hafa séð eins mikinn árangur nú um nokkurra ára skeið. Við höfum verið að hjakka mikið í sama farinu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að því að í umræðunni um jafnréttismál hefði verið mjög ríkjandi að auka hlut kvenna í stjórnmálum og í nefndum og ráðum. Þetta tengist þeirri umræðu sem hefur verið mjög áberandi og kölluð hefur verið: ríkisfemínismi, þ.e. að sjónir hafa mjög beinst að ríkiskerfinu, hinu opinbera. En að sama skapi --- og það var rétt hjá hv. þm. --- hefur umræðan um stöðu kvenna úti á hinum almenna vinnumarkaði, hlut þeirra í efnahagskerfinu og hvernig mætti bæta stöðu verkakvenna, verið mjög víkjandi. Ef ég hugsa til áranna þegar Rauðsokkahreyfingin starfaði og var með sinn verkalýðsmálahóp og hélt ráðstefnur um kjör verkakvenna, má glöggt sjá hve áherslurnar hafa breyst mikið enda hafa síðustu upplýsingar um launakjör leitt í ljós að verkakonur hafa dregist allmikið aftur úr í launum. Það sýna upplýsingar um kaupmátt. Ég get bent á að það verður Kastljósþáttur í Ríkissjónvarpinu annað kvöld um kjör verkakvenna og þessa þróun hjá þeim. Það er því hárrétt að áherslurnar hafa mjög mikið verið innan kerfisins ef svo má segja, hjá ríkinu og hjá sveitarfélögunum og það á auðvitað allt saman rétt á sér. En það má segja að umræðan hafi kannski verið býsna þröng.

Hér hefur líka verið spurt hvar jafnréttismálin eigi heima og þeirri spurningu varpað fram hvort betri árangur næðist ef þau væru vistuð annars staðar í ríkiskerfinu. Ég hef í sjálfu sér enga trú á því. Ef við horfum t.d. til Noregs þar sem staða kvenna, fjölskyldna og barna er með því besta sem þekkist í heiminum, þá hefur þar verið starfandi fjölskyldu- og barnamálaráðuneyti sem hefur skilað mjög miklum árangri. Þetta er spurning um áherslur og pólitískan vilja og auðvitað hugarfarið sem er ríkjandi í þjóðfélaginu.

Vakin hefur verið athygli á því að samkvæmt þessari tillögu er ekki reiknað með miklum peningum í jafnréttismál. Ég held að margt af því sem á að fara að framkvæma hljóti að kosta peninga. Þær aðgerðir sem á að grípa til á næstunni, og við hljótum að gera kröfu um að verði fylgt eftir, hljóta að kosta peninga eigi þær að koma að einhverju gagni.

[16:00]

Ég vék í máli mínu fyrr í dag að einstaka ráðuneytum og ég vil koma sérstaklega að landbrn. í framhaldi af orðaskiptum okkar hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að ekki er verkefnalisti landbrn. langur. Ég held einmitt að það sé dæmi um ráðuneyti sem þarf verulega að taka sér tak. Það kom í ljós í síðustu áfangaskýrslu um framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar að landbrn. stóð sig langsamlega verst hvað varðar skipan kvenna í ráð og nefndir og ég held að það sé margt fleira sem þar þarf að skoða, m.a. í tengslum við að reyna að efla sveitir landsins og draga úr því að t.d. konur flytji þaðan. Ég tók með mér í ræðustólinn plagg frá hollenska landbúnaðarráðuneytinu, sem ég á, og er jafnréttisáætlun hollenska landbúnaðarráðuneytisins þar sem þeir leggja megináherslu á að auka hlut kvenna í allri ákvarðanatöku og stjórnun og að styðja þær með margvíslegum hætti til frumkvæðis og til sjálfstæðrar þátttöku í atvinnulífinu og þetta held ég að landbrn. þurfi að athuga mun betur.

Það er margt í þessari áætlun sem væri spennandi að velta fyrir sér en ég ætla að lokum aðeins að nefna menntmrn. Það er tvennt sem ég vil nefna. Ég held að í menntamálum væri ástæða til að beita sér mun ákveðnar að starfsvali, bæði pilta og stúlkna, karla og kvenna en starfs- og menntunarval hefur verið ótrúlega einhæft hér og ekki í neinu samræmi við það sem við höfum séð í öðrum löndum.

Ég vil líka nefna íþróttamálin en það er einmitt dæmi um að menn hugsa ekki í samhengi, þ.e. að um leið og menntmrn. ætlar að beita sér fyrir íþróttauppeldi stúlkna, þá liggur fyrir frv. til nýrra íþróttalaga þar sem ráðuneytið virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að þetta tvennt kunni nú að tengjast og að lögin um íþróttir, hin almennu lög um íþróttir, þurfi hugsanlega á því að halda að þar sé greint á milli þarfa karla og kvenna, drengja og stúlkna, og einmitt þar sé möguleikinn á að samþætta og beita áhrifum til að auka hlut kvenna í íþróttum. En eins og nýlega hefur verið vakin athygli á, hæstv. forseti, er mjög mikið og alvarlegt misrétti ríkjandi (Forseti hringir.) í íþróttamálum og það er eitthvað sem stjórnvöld hljóta að taka á í ljósi þess fjármagns sem veitt er til íþróttamála og á auðvitað að skilyrða að því sé skipt nokkuð jafnt milli karla og kvenna.