Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:21:33 (3604)

1998-02-10 16:21:33# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:21]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan vakti ég athygli á því að meðal þess sem verið er að leggja til í þessari þáltill. er að nefnd forsrh. um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga eigi í skýrslu sinni að leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna. Hv. þm. sem rétt í þessu var að ljúka máli sínu situr í þessari nefnd eftir því sem ég best veit. Af því að ég veit að hv. þm. er mjög áhugasöm um þessi málefni, væri mjög fróðlegt að hv. þm. greindi okkur aðeins frá því. Þetta er sérstaklega nefnt í tillögu þeirri sem hér er til umræðu og fróðlegt væri að fá að vita hvort nefndin hefur látið vinna að þessu máli. Ég vek athygli á því að hér er verið að tala um sérstaka úttekt, ekki þýðingar á plöggum frá útlöndum heldur sérstaka úttekt. Þetta er mjög viðurhlutamikil athugun, enda alveg augljóst að vegna sérstöðu Íslands getum við ekki annað en stuðst við okkar eigin frumrannsókn á þessu sviði.

Nú vildi ég spyrja hv. þm., vegna þess að ég veit að þessi mál eru komin á nokkurt skrið, hvernig eða hvort nefndin hafi á einhvern hátt unnið að þessu. Er það þá ekki ljóst að forsenda þess að hægt sé að leggja fram tillögur að nýjum kosningalögum sé að slík úttekt hafi farið fram? Lægi þá klárlega fyrir hvaða áhrif þær breytingar á kosningalögum sem til yrðu lagðar hefðu á stöðu kvenna og möguleika til þess að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórnar?