Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:27:24 (3608)

1998-02-10 16:27:24# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem nánast til að ljúka ræðu minni sem ég fékk ekki lokið í fyrri umganginum. Ég hafði farið nokkrum orðum um þáltill. í heild sinni og tekið undir margt sem þar er fram sett. Sérstaklega tók ég undir þá nýhugsun sem kölluð hefur verið samþætting, að jafnréttissjónarmið skuli samþætt allri opinberri stefnumótun, og vék að því nýmæli að félmrn. hyggst kanna og fara yfir alla lagasetningu sem ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi með þessi jafnréttissjónarmið í huga. Þetta finnst mér vera jákvætt.

Ég tók undir ýmsa aðra þætti, hugmyndir um upplýsingaöflun, en gagnrýndi jafnframt að á sama tíma og talað væri um upplýsingu væri lokað á upplýsingar. Í því sambandi vék ég að því sem er að gerast í launakerfinu á vegum fjmrn. og hæstv. fjmrh.

Að lokum ætlaði ég að koma að því sem er að gerast í launamálum almennt. Ég hélt því fram að verið væri að smíða kerfi sem til þess væri fallið að auka launamun, ekki síst milli karla og kvenna. Hv. þm. Pétur Blöndal tók af mér ómakið. Hann lýsti þessum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar, sagði reyndar að þær væru til þess fallnar að draga úr launamun kynjanna og talaði um að markaðsvæða launakerfið. Þó að hann notaði ekki þau hugtök lagði ég þann skilning í orð hans. Ég skildi hann svo að mikilvægt væri að koma á einstaklingsbundnum kjarasamningum þar sem einstaklingurinn gæti notið sín, konur ekki síður en karlar. Ef fyrirtækin hefðu arðsemissjónarmið að leiðarljósi mundi það draga úr launamun kynjanna.

Þetta kann að eiga við um tiltekna hópa í launakerfinu. En ég er jafnviss um að markaðsvæðing launakerfisins á þeim forsendum sem hér var talað um, með einstaklingsbundnum kjarasamningum, er sannanlega til þess fallin að auka launamun. Þegar arðsemissjónarmiðin ein ráða ýtir það enn undir þennan launamun. Þetta er einmitt að gerast í launakerfinu núna. Valdinu er dreift og einstökum stofnunum fært vald um launamyndun innan sinna veggja. Það ræðst af þeim fjármunum sem viðkomandi stofnun hefur milli handa.

[16:30]

Það segir sig sjálft að sumar stofnanir hafa úr meiru að spila en aðrar, t.d. í orkugeiranum, ef við tökum hann annars vegar og síðan uppeldis- og heilbrigðisstofnanir hins vegar. Þær eru flestar hverjar fjársveltar á sama tíma og hinar hafa fjármuni milli handa. Það mun síðan gerast að einstaklingar sem sinna sama starfi, t.d. annast símavörslu í rafmagnsveitustofnun annars vegar og spítala hins vegar, munu verða á ólíkum kjörum. Þá er aðeins eftir að spyrja: Hvar starfa karlarnir og hvar starfa konurnar? Konurnar starfa almennt hjá stofnunum sem eru fjársveltar en karlana er fremur að finna í stofnunum sem hafa meiri fjárráð. Ég er sannfærður um að allt þetta mun verða þess valdandi að launamunur muni aukast og þá einnig launamunur milli karla og kvenna. Þessu ber að sporna við og þess vegna sagði ég í fyrri ræðu minni og ítreka aftur að ég tel mikilvægt að ríkisstjórnin ætli að láta kanna sérstaklega hvort og hvernig opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna og í því sambandi þurfi ríkisstjórnin að kanna afleiðingar eigin gjörða.