Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:51:59 (3612)

1998-02-10 16:51:59# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég teldi afar brýnt að annaðhvort Jafnréttisráð eða félmrn. hlutuðust til um að félmn. fengi í umfjöllun sinni um málið yfirlit yfir hvernig síðasta áætlun hefði verið framvæmd, hvað af því sem þá átti að gera hefði komist til framkvæmda og hvað ekki. Öðruvísi getum við ekki metið árangurinn af framkvæmdaáætlunum.

Hæstv. ráðherra fór einungis yfir sitt eigið ráðuneyti, hvað hefði verið gert og hvað stæði út af og taldi að nefndin hlyti að leita til annarra ráðuneyta um hvað þau hefðu gert. Ég tel eðlilegt að það sé ráðuneytið sjálft eða eftir atvikum Jafnréttisráð, sem hefur haft frumkvæði að því að halda utan um framkvæmdaáætlunina, sem gefi nefndinni skýrslu þar um, og ég spyr ráðherrann hvort hann taki ekki undir það með mér.

Í annan stað spyr ég ráðherrann, af því að ég tel að það geri gagn, hvort ekki sé rétt að setja inn í framkvæmdaáætlunina þá skyldu að hvert einasta ráðuneyti og undirstofnanir þeirra vinni reglulega jafnréttisáætlanir. Ég held að sú samþykkt sem var gerð í ríkisstjórninni 1989, um fjögurra ára jafnréttisáætlanir fyrir ráðuneyti og undirstofnanir, hafi skilað árangri. Að vísu voru ekki gerðar nema um 40--60 áætlanir en ég tel mikilvægt að hvert einasta ráðuneyti og undirstofnanir þeirra geri jafnréttisáætlanir, ekki síst, herra forseti, að því er varðar launamisrétti karla og kvenna. Við höfum það borðliggjandi fyrir okkur í bönkunum að launamisrétti viðgengst og þar hafa aldrei verið gerðar áætlanir.

Að síðustu spyr ég ráðherra hvað hann telji að hægt sé að gera til að auka þátt kvenna í stjórnmálum. Telur ráðherrann t.d. ekki rétt að núverandi ráðherrar sýni gott fordæmi, taki til heima hjá sér og rýmki fyrir konum í ríkisstjórninni nú þegar ráðherraskipti verða, vonandi á næstu vikum eins og hæstv. forsrh. hefur boðað? Er hæstv. ráðherra tilbúinn til þess að standa upp fyrir konu í Framsfl. þannig að hægt sé að fjölga konum í ríkisstjórninni? Það er grundvallaratriði að fjölga konum í ríkisstjórninni. Við erum bara með eina og ef ráðherrann meinar eitthvað með því sem hann segir um að auka hlut kvenna í stjórnmálum beitir hann sér fyrir því að sú fjölgun verði við ráðherraskiptin eftir nokkrar vikur.