Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:37:54 (3637)

1998-02-11 13:37:54# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með að það skuli hafa verið gamansami hæstv. forsrh. sem fór í fötin í morgun en ekki reiði hæstv. forsrh. sem var hér á mánudaginn. Það er alveg ljóst, herra forseti, að það er sú ákvörðun stjórnarandstöðunnar að bremsa af hin bráðræðislegu og gerræðislegu lagaáform ríkisstjórnarinnar sem gáfu það svigrúm sem hafa nú komið málum í þann farveg sem raun ber vitni ella hefði lagafrv., ef óskir hæstv. forsrh. hefðu náð fram að ganga, verið langleiðina orðið að lögum áður en það tilboð sjómanna barst sem hefur nú sett málin í nýjan farveg. Það er alveg ljóst að með þessu hafa skapast möguleikar til að komast hjá lagasetningu sem hæstv. forsrh. viðurkennir væntanlega að hefði verið neyðaraðgerð og þvingunaraðgerð. Eða hvað? Varla mátti merkja eftirsjá í rödd hæstv. forsrh. áðan.

Það er nauðsynlegt að þetta komi fram og hin ósvífnu áform hæstv. ríkisstjórnar svo ekki sé minnst á þær ásakanir sem hæstv. forsrh. og formaður þingflokks Sjálfstfl. viðhöfðu á mánudagskvöldið var, bæði í garð stjórnarandstöðunnar og í raun Alþingis í heild sinni.

Framvinda málsins síðan segir allt sem segja þarf í þessu efni. Eftir stendur að hæstv. ríkisstjórn hugðist brjóta á bak aftur löglega boðað verkfall sjómanna með lagasetningu af því tagi sem liggur fyrir í drögum á borðum þingmanna. Sú ætlan hæstv. ríkisstjórnar verður geymd en ekki gleymd svo að notuð séu nýlega viðhöfð ummæli.