Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:47:50 (3643)

1998-02-11 13:47:50# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:47]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Öll þessi umræða sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar setja á er heldur skringileg við þær aðstæður sem við búum við. Ég hygg að allir, sem hlut eiga að máli og hafa tekið þátt í ríkisstjórnum og hafa átt þátt í að þurfa við neyðaraðstæður að bregðast við kjaradeilum á þann veg að Alþingi hafi þurft að grípa inn í, hljóti að gera sér grein fyrir því að enginn fagnar meir þegar sú staða kemur upp en sú ríkisstjórn sem í hlut á, þegar aðilar eru reiðubúnir að fresta deilum, láta hjól atvinnulífsins snúast og taka sér meiri tíma í að finna lausn. Fulltrúar allra þeirra flokka, sem hér hafa talað, hafa verið í ríkisstjórn og staðið í þeim sporum og sjálfsagt oft kosið að þessi staða kæmi upp og hljóta að vita það a.m.k. með sjálfum sér að enginn fagnar því meir en sú ríkisstjórn sem á hlut að máli.

Staðreyndin sem liggur fyrir er sú að sjómannasamtökin hafa boðist til að fresta boðuðu verkfalli. Forsenda þess að verkfallinu er frestað er sú að 1. gr. frv., sem hér var lagt fram, komi til framkvæmda. Frumvarp, sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa verið að lýsa svo mikilli vanþóknun á. Það er þetta frv. sem kemur hreyfingu á hlutina. Í yfirlýsingu sjómannasamtakanna segir að það hafi enginn viðræðugrundvöllur fundist. Nú er auðvitað engin trygging fyrir því að hann komi með þessum hætti en í þessu er alla vega sú von að það gerist og þá von hafa sjómannasamtökin gripið og við hljótum að þakka þeim og öðrum samningsaðilum fyrir að grípa það tækifæri og skapa það svigrúm og væri nú miklu nær að við byndumst samtökum um að þakka samningsaðilum fyrir að taka sér þetta svigrúm og nota þennan tíma fremur en standa í svo gagnslausu og kjánalegu karpi sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa haft hér í frammi.