Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:50:21 (3644)

1998-02-11 13:50:21# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þróunin í sjómannadeilunni undanfarna daga hefur svo sannarlega sýnt að stjórnarandstaðan gerði rétt í því að stöðva hið illræmda frv. ríkisstjórnarinnar, um stöðvun verkfalla sjómanna, fengi ekki flýtimeðferð á Alþingi. Mér skilst reyndar að nú standi á samþykki Vélstjórafélagsins, en ef það verður jákvætt má ljóst vera að verkfallinu verður aflýst og frv. ríkisstjórnarinnar óþarft. Frumvarpið á auðvitað að draga til baka og það strax.

Það verður svo sannarlega ánægjulegt ef stjórnarandstöðunni tekst að afstýra því að enn einu sinni verði sett lög á sjómenn og vonandi verður það ekki reynt aftur að troða svo á mannréttindum heillar stéttar að samningsréttur hennar sé tekinn af henni ár eftir ár. Vonandi verður nú farið í lagabreytingar sem sjómenn, þingið og þjóðin öll getur sætt sig við.

Lögin um stjórn fiskveiða eru mjög umdeild og þau þarf að laga með aðkomu sem flestra sjónarmiða þannig að óánægjuöldurnar sem nú ríkja um gildandi lög og vegna sífelldra brota á kjarasamningum sjómanna lægi. Gildandi þingsköp reyndust vel og verður fróðlegt að fylgjast með hvort nú eigi að herða enn einu sinni að möguleikum stjórnarandstöðunnar með væntanlegum breytingum á þingsköpum. Slíkt væri aðför að þingræðinu og ólíðandi með öllu.